Enski boltinn

Rodgers hefur fengið fimm atvinnutilboð síðan hann var rekinn frá Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rodgers var nálægt því að gera Liverpool að Englandsmeisturum tímabilið 2013-14.
Rodgers var nálægt því að gera Liverpool að Englandsmeisturum tímabilið 2013-14. vísir/getty
Brendan Rodgers segist hafa fengið fimm atvinnutilboð síðan hann var rekinn frá Liverpool í október. Eitt þeirra liða sem falaðist eftir kröftum Rodgers var Swansea sem hann stýrði á árunum 2010-12.

„Ég hef fengið fimm atvinnutilboð síðan ég yfirgaf Liverpool, allt frá félögum sem ég ber mikla virðingu fyrir, en mér fannst ég þurfa smá frí,“ sagði Norður-Írinn í samtali við beIN Sports.

Rodgers segir að starf knattspyrnustjórans sé krefjandi og hann sé feginn að fá aðeins að anda.

„Ég nýt þess að vera stjóri en þegar ég fór frá Liverpool fékk ég loks tíma til að setjast niður, skoða mín mál og fara yfir það sem ég get gert betur og vonandi nýtur næsta lið sem tek við góðs af því,“ sagði Rodgers sem hefur áður verið í þessari stöðu.

„Sama staða kom upp þegar ég yfirgaf Reading 2009. Þá fékk ég smá frí og næsta lið sem ég tók við, Swansea, naut góðs af því og það gekk vel. Vonandi verður sama upp á teningnum núna, ég mun fara vel yfir mín mál og reyna svo að koma mér að hjá einhverju félagi í sumar.“

Eins og áður sagði bauðst Rodgers að taka aftur við Swansea eftir að Garry Monk var rekinn úr starfi í desember á síðasta ári.

„Swansea er yndislegt félag, og það voru önnur úrvalsdeildarfélög sem mér buðust að taka við, en ég var opinn og hreinskilinn og sagði að ég væri ekki tilbúinn að taka við liði fyrr en eftir tímabilið,“ sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×