Enski boltinn

Gylfi jafnaði fjórtán ára afrek Eiðs Smára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu um helgina.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu um helgina. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði um helgina sitt fimmta deildarmark á árinu 2016 og varð aðeins annar íslenski leikmaðurinn sem nær að skora fimm mörk í fyrstu sex leikjum nýs árs í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Gylfi skoraði markið sitt með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu en annan leikinn í röð kom Gylfi Swansea-liðinu í 1-0 en varð síðan að horfa upp á mótherjana skora jöfnunarmark og tryggja sér stig.

Það voru liðin fjórtán ár síðan að Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fimm mörk í fyrstu sex deildarleikjum sínum með Chelsea á árinu 2002. Eiður Smári skoraði þessi fimm mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum en náði síðan ekki að skora í leik fimm og sex.

Gylfi er aftur á móti eini Íslendingurinn sem hefur skorað í fimm af sex fyrstu deildarleikjum á nýju ári í ensku úrvalsdeildinni.

Eiður Smári komst nálægt því að jafna þetta ári seinna þegar hann skoraði fjögur mörk í fyrstu sex leikjum sínum í ársbyrjun 2003 og Heiðar Helguson skoraði fjögur mörk fyrir Fulham í fyrstu sex deildarleikjum sínum á árinu 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×