Fótbolti

Suárez og Messi með sjö mörk saman í 7-0 sigri á strákunum hans Gary Neville

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá þeim Luis Suarez og Lionel Messi í kvöld.
Það var gaman hjá þeim Luis Suarez og Lionel Messi í kvöld. Vísir/Getty
Barcelona er svo gott sem komið í bikarúrslitaleikinn á Spáni eftir ótrúlegan 7-0 sigur á Valencia í kvöld í fyrri leik liðanna í undanúrslitum spænska Konungsbikarsins en leikurinn fór fram á Camp Nou í Barcelona.

Luis Suárez og Lionel Messi fóru á kostum í kvöld og voru hreinlega óstöðvandi. Þeir skoruðu öll sjö mörkin, Suárez var með fernu og Messi skoraði þrennu.

Auk þess að skora fjögur mörk þá átti Luis Suárez einnig eina stoðsendingu á Messi en Neymar lagði upp mark fyrir bæði Luis Suárez og Lionel Messi í kvöld.

Luis Suárez skoraði tvö fyrstu mörkin á fyrstu tólf mínútum leiksins og Messi skoraði síðan þrjú mörk frá 29. til 74. mínútu og kom Barcelona í 5-0.

Luis Suárez átti síðan lokaorðið þegar hann skoraði tvö síðustu mörk leiksins á 83. og 88. mínútu.

Það hefur lítið gengið hjá Valenica-liðinu síðan að Gary Neville tók við og liðið hefur enn ekki unnið í spænsku deildinni.

Liðið fór hinsvegar áfram í bikarnum en eftir þessa útreið í kvöld er erfitt að sjá Neville halda starfi sínu mikið lengur.

Seinni leikurinn á heimavelli Valencia í næstu viku er aðeins formsatriði eftir þessi úrslit og nú er mesta spennan að sjá hvort Sevilla eða Celta Vigo mæti Barcelona í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×