Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Þór Þ. 78-80 | Góð ferð Þórsara í Skagafjörðinn

Ísak Óli Traustason skrifar
Ragnar Nathanaelsson og félagar unnu sterkan sigur í kvöld.
Ragnar Nathanaelsson og félagar unnu sterkan sigur í kvöld. Vísir/valli
Það var háspenna í Síkinu á Sauðárkróki þegar að Þór Þorlákshöfn sigraði Tindastól, 78–80.

Leikurinn fór fjöruga af stað og leiddu heimamenn eftir fyrsta leikhluta 21 – 16. Jafnræði var með liðinum í öðrum leikhluta sem að endaði 17 – 16 fyrir heimamenn og því voru hálfleikstölur á Sauðárkróki 38 -32.

Vance Hall, leikmaður Þórs fór mikinn og skoraði 17 stig í hálfleiknum en hjáheimamönnum voru þeir Darrell Flake og Jerome Hill með 10 stig hvor. Stólarnir voru sterkir í teignum í fyrri hálfleik þrátt fyrir nærveru Ragnars Nathanaelssonar sem virtist og voru að vinna frákastabaráttuna 29 – 12 í hálfleik.

Eitthvað hefur Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar sagt við sína menn í leikhléinu því að hans menn komu með krafti inn í síðari hálfleik og náðu 16 – 2 kafla á Tindastól og leiddu leikinn skyndilega með 8 stigum.

Heimamenn náðu þó að rétta úr kútnum en Þór vann leikhlutann 16 – 23 og leiddu leikinn 54 – 55 þegar að þriðja leikhluta lauk.

Síðasti leikhlutinn var gríðarlega spennandi. Þegar að staðan var 75 – 75 og ein og hálf mínúta eftir skoraði Emil Karel Einarsson þriggja stiga körfu og kom gestunum yfir. Það virtist slá heimamenn út af laginu og gestirnir frá Þorlákshöfn voru sterkari í lokinn og unnu leikhlutann 24 – 25 og þar að leiðandi leikinn sjálfann 78 – 80.

Vance Hall, leikmaður Þórs Þorlákshafnar fór gjörsamlega hamförum í þessum leik og endaði leikinn með 34 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar. Emil kom honum næstur með 18 stig.

Hjá heimamönnum endaði Jerome Hill með 19 stig og 11 fráköst, Helgi Rafn átti góðan leik með 18 stig. Darrel Lewis skoraði aðeins 9 stig í leiknum en var jafnframt með 8 stoðsendingar og fráköst.

Etir leikinn er Tindastóll í 7. sæti deildarinnar með 14 stig en Þór Þorlákshöfn hoppuðu upp í 4. sæti með 16 stig.

Einar Árni: Vance var „outstanding“

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar var að vonum sáttur eftir sigur sinna manna

„Ég er gríðarlega ánægður með mitt lið. Mér fannst við vinna erfiða vinnu til þessa að klára þetta og við sýndum mikinn styrk,” sagði hann við Vísi eftir leik.

„Við vorum sex stigum undir í hálfleik í miklum vandræðum, stóru mennirnir þeirra búnir að skora 29 af 38 stigum þeirra og búnir að taka 11 sóknarfráköst og það var það sem var að gera okkur erfitt fyrir.“

„Mér fannst við gera mun betur varnarlega og frákastalega í seinni hálfleik og umfram allt vorum við að setja niður stór skot og Vance var outstanding í þessum leik og þeir réðu illa við hann en svo komu gríðarlega mikilvægar körfur frá Emil Karel, Halldóri Garðari og Grétari og það voru margir að leggja í púkkið,“ sagði Einar ánægður með sína menn.

Þjálfarinn var ánægður með stóran manninn Ragnar Nathanaelsson í leiknum.

„Raggi Nat á hrós skilið, hann var ekki í líkingu við sjálfan sig varnarlega í fyrri hálfleik en batt þetta vel saman í seinni hálfleik og svo Baldur og Þorsteinn en þeir halda Lewis hérna í 9 stigum, við höldum honum í 11 heima en þetta er fáránlega góður leikmaður sem að er erfitt að eiga við og ég er hrikalega ánægður hvernig bræðurnir með hjálp liðsfélaga sinna hafa náð tækla hann svona vel í þessum leikjum í vetur,” sagði Einar.

Aðspurður út í góða byrjun á seinni hálfleiknum sagði hann:

„Við töluðum um það að miðað við vandamál okkar í varnarleiknum og þá staðreynd að Vance var að draga okkur að landi í stigalega séð þá var þetta bara sex stiga leikur”, sagði Einar og bætti því við:

„Það var gríðarlega mikilvægt að við settum tvo þrista í startið á þriðja leikhluta frá einhverjum öðrum en Vance og það kveikir svolítið í liðinnu og þessi sprettur lagði svoldið grunnin að þessu en eftir það var bara að halda haus.“ sagði Einar að lokum og gekk brosandi í burtu.

Hall: Ég var heitur í kvöld

Vance Hall, leikmaður Þórs Þorlákshafnar var frábær í kvöld og hafði þetta að segja um leikinn.

„Ég vil byrja á því að þakka Tindastólsmönnum fyrir góðan leik, þeir eru með gott lið og það er erfitt að koma og spila hérna og þeir gáfu okkur hörkuleik sem við sigruðum svo að lokum,” sagði Bandaríkjamaðurinn.

„Ég er ánægður með 34 stigin og er sama þó þau séu bara 20, það er sigurinn sem að skiptir máli, ég var heitur í kvöld og liðsfélagar mínir voru að koma boltanum til mín og ef að einhver er heitur þá viljum við halda honum heitum og koma boltanum til hans,” sagði Hall.

„Við komum með baráttu inn í þriðja leikhluta en við áttum í vandræðum með að frákasta í fyrri hálfleik og það gaf þeim meðbyr og þess vegna leiddu þeir í hálfleiknum”, sagði Hall og bætti því hans menn hafi byrjað að frákasta og spila betri vörn sem hafi lagt grunnin að sigri.“

Costa: Ef þú gefur Hall boltann þá skorar hann

Jose Costa, þjálfari Tindastóls var svekktur í leikslok þegar að blaðamaður Vísis náði tali af honum.

„Mér fannst við spila góða vörn en sóknin okkar var ekki góð, það vantaði hreyfingu á boltann,” sagði Costa um framistöðu sinna manna í kvöld.

„Þeir eru með Hall en þú gefur honum boltann og hann skorar ,við erum ekki með þannig leikmann núna og í jöfnum leik eins og þessum er mikilvægt að vinna og leikmaður eins og Hall er því enn mikilvægari fyrir vikið,” sagði Costa.

„Þeir voru með meiri möguleika út af því hvernig Hall var að spila í lokinn,” bætti Costa við.

Aðspurður út í jákvæðu hlutina við leikinn sagði spænski þjálfarinn: „Við börðustum allan leikinn þrátt fyrir það að við værum ekki að spila vel sóknarlega. Við gefumst ekki upp sem er jákvætt að mínu mati”.

Aðspurður út í það hvort að hann þurfi fleiri leikmenn í leikmannahóp sinn sagði Costa: „Við þurfum að gera eitthvað, Lewis þarf hjálp við að skora og Pétur þarf hjálp sem leikstjórnandi, við eigum í vandræðum gegn stórum mönnum en ég veit ekki hvað gerist,” sagði Costa.

„Í jöfnum leikjum þá höfum við ekki marga möguleika undir lokinn Lewis getur ekki gert þetta allt sjálfur því að liðin vita hvað hann getur og hafa því góðar gætur á honum í jöfnum leikjum,” sagði Costa svekktur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×