Erlent

Viðskiptaþvingunum á Íran aflétt

Birgir Olgeirsson skrifar
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er afar ánægður með þennan samning.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er afar ánægður með þennan samning. Vísir/Getty
Viðskiptaþvingunum á Íran hefur verið aflétt eftir að eftirlitsaðilar höfðu staðfest að yfirvöld þar í landi hefðu farið eftir samningi sem er hannaður til að koma í veg fyrir þróun kjarnavopna.

Haft er eftir Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, að samningurinn muni stuðla að aukinni friðsæld í Íran og á alþjóðavettvangi.

Með því að aflétta viðskiptaþvingunum á Íran losna eignir upp á milljarði dala og verður hægt að selja olíu sem er unnin í landinu á alþjóðavísu. 

Íranir hafa ávallt haldið því fram að nýting þeirra á kjarnorku sé friðsamur gjörningur en fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC segir andstæðinga samkomulagsins telja það ekki ganga nógu langt til að tryggja að Íranir geti ekki framleitt kjarnavopn. 

Forseti Íran, Hassan Rouhani, fagnaði þessum áfanga í dag og þakkaði þjóðinni fyrir þolinmæðina sem hún hefur sýnt í þessu máli. 

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, hefur fyrirskipað að viðskiptaþvingunum gegn Íran, í tengslum við þróun kjarnavopna, verði aflétt. 

Kerry fundaði með utanríkisráðherra Íran í Vín í Austurríki þar sem þeir ræddu hvort möguleiki væri á að aflétta viðskiptaþvingunum. Kerry sagði að Íran hefði tekið mikilvæg skref í átt að samkomulagi sem margir hefðu efast um að yfirvöld þar í landi myndu taka.

„Í þakkarskyni munu Bandaríkin og Evrópusambandið aflétta viðskiptaþvingunum og auka þannig tækifæri írönsku þjóðarinnar. Vegna þessara aðgerða er heimurinn allur öruggari því hættan af kjarnavopnum hefur verið minnkuð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×