Innlent

Sprenging orðið í fjölda þeirra sem sitja inni fyrir kynferðisbrot

Jóhannes Stefánsson skrifar
Helgi Gunnlaugsson segir refsipólitík hafa breyst.
Helgi Gunnlaugsson segir refsipólitík hafa breyst. Mynd/Heiða Helgadóttir Andlitsmynd/Pjetur
Sprenging hefur orðið í fjölda þeirra sem sitja inni fyrir kynferðisbrot og mikil fjölgun hefur einnig orðið hjá þeim sem sitja inni fyrir ofbeldis- og fíkniefnabrot. Fjöldi fanga í íslenskum fangelsum hefur aukist verulega frá aldamótum.

En þetta er ekki endilega vegna þess að Íslendingar fremja meira af afbrotum en áður.

„Ástæðan liggur ekki endilega í því að þessum brotum hafi fjölgað svo mjög í íslensku samfélagi frá aldamótum," segir Helgi Gunnlaugsson prófessor við Háskóla Íslands.

„Ástæðan er fyrst og fremst í því að þolendur ofbeldisbrota, sér í lagi þolendur kynferðisbrota eru að stíga fram miklu meir nú en áður, það er að segja, þolendur eru að stíga miklu meira fram og kæra nú heldur en áður. Varðandi fíkniefnin að þá sjáum við meiri frumkvæðisvinnu og meira eftirlit lögreglu í að upplýsa fíkniefnamál," segir Helgi

Hann bætir svo við: „Í þriðja lagi er breytt refsipólitík. Við erum að sjá þyngri refsingar og lengri dóma og þetta eru ástæður sem við sjáum að baki fjölda fanga í fangelsum á íslandi."

Árið 2000 voru 219 manns í afplánun í íslenskum fangelsum en árið 2012 voru þeir 389.

Aukningin hefur hlutfallslega verið allra mest í hópi þeirra sem afplánar fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot, en árið 2000 afplánuðu 10 fangelsisrefsingu fyrir slík brot. Árið 2012 voru þeir orðnir 47. Það er aukning upp á 370 prósent. Þessa aukningu má meðal annars rekja til vitundarvakningar um málaflokkinn, en fleiri stíga nú fram og leggja fram kærur en áður.

Flestir sitja hinsvegar inni í íslenskum fangelsum fyrir fíkniefnabrot, en fjölgun fanga hefur verið mest í þeim brotaflokki. Þannig eru 28% allra fanga sem sitja inni í íslenskum fangelsum þar fyrir fíkniefnabrot. Fjöldi þeirra sem koma í afplánun vegna fíkniefnabrota hefur á þessu tímabili tvöfaldast.

Það er ljóst að íslensk fangelsi eru löngu sprungin og anna ekki þörfinni. En hvað þarf að gera í málaflokknum?

„Það þarf að fylgja eftir þeim áforum sem hafa verið í gangi undanfarið um að byggja nýtt fangelsi. Ástandið hefur verið mjög erfitt í fangelsismálunum og það þarf að koma þeim málum í betra horf," segir Helgi Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×