Innlent

Niðurstaðan jákvæð og mikil hvatning

Meirihluti þeirra sem styðja Samfylkinguna segist í skoðanakönnun styðja Árna Pál Árnason til formennsku í flokknum, en meirihluti svarenda úr öllum flokkum til samans, styður Guðbjart Hannesson.

Samkvæmt könnuninni sem MMR gerði fyrir viðskiptablaðið, styðja 57,5 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar Árna Pál og 42,5 prósent Guðbjart Hannesson velferðarráðherra. Munurinn er 15 prósentustig. Guðbjartur hefur hinsvegar nauman meirihluta þegar svör fólks úr öllum flokkum eru skoðuð, og munar þar einkum um eindregin stuðning Vinstri grænna við hann, og meirihlutastuðning kvenna. Árni Páll segir mikilvægt að Samfylkingin byggi á kröftugri framtíðarsýn en ekki kyrrstöðu.

„Þetta er jákvæð niðurstaða og mikil hvatning. Þetta er auðvitað aðeins vísbending um stöðuna en hún er mikilvæg. Ég er sannfærður um að þorri Samfylkingarmanna deilir þeirri skoðun með mér að það sé mikilvægt fyrir Samfylkinguna að halda áfram og við byggjum starf okkar á kröftugri framtíðarsýn," segir Árni Páll.

Árni segir mikilvægt að Samfylkingin leiki enga biðleiki í stöðunni eins og hún er nú.

„Heldur sé Samfylkingin með sjálfstraust til þess að velja sér forystu sem að hefur framtíðarsýn og vill hasla Samfylkingunni völl sem raunverulegs burðarflokks á miðju og til vinstri."

Guðbjartur nýtur meira stuðnings meðal kvenna innan Samfylkingarinnar samkvæmt könnun MMR en Árni Páll. Hann segir Samfylkinguna feminískan flokk og hann hafi sýnt með störfum sínum sem ráðherra jafnréttismála og þingmaður að hann sé femínisti.

Sp. blm. Sumir hafa stillt því upp að þú sért meiri hægri-krati heldur en Guðbjartur og að hann sé meiri vinstri-krati.

„Það eru svona merkimiðar sem fóru með áhrif vinstrimanna í íslenskum stjórnmálum og gerðu þá áhrifalausa í áratugi. Samfylkingin var stofnuð utan um opið og fordómalaust samtal en ekki innihaldslausa merkimiða," sagði Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×