Lífið

Sódóma til sölu fyrir 30 milljónir

Skemmtistaðurinn Sódóma Reykjavík hefur verið auglýstur til sölu.
Skemmtistaðurinn Sódóma Reykjavík hefur verið auglýstur til sölu. Mynd/Pjetur
Skemmtistaðurinn Sódóma Reykjavík við Tryggvagötu hefur verið auglýstur til sölu. „Það hafa nokkrir hringt en það er ekkert í hendi,“ segir fasteignasalinn Ástþór Reynir Guðmundsson hjá Remax, sem vildi annars ekkert tjá sig um málið.

 

Eigendur staðarins hafa óskað eftir tilboðum, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kostar staðurinn á bilinu 25 til 30 milljónir króna og inni í því verði eru nýleg tæki og búnaður.

 

Össur Hafþórsson, einn af eigendum Sódómu, vildi heldur ekkert tjá sig um söluferlið. Svo virðist engu að síður sem Össur vilji minnka við sig í skemmtanabransanum, enda hefur hann haft í nógu að snúast undanfarin ár við rekstur Ellefunnar og Kaffi Grand, auk þess sem hann á húðflúrsstofuna Reykjavík Ink ásamt eiginkonu sinni Lindu Mjöll Þorsteinsdóttur.

 

Rúm tvö ár eru liðin síðan Össur tók við rekstri Sódómu. Þá hafði hann þetta að segja um kaupin í miðri kreppunni: „Þetta er svolítið brjálæði og kannski ekki það gáfulegasta en þörfin eftir þessari stærð af húsnæði er mjög mikil eftir að Gaukurinn hætti og Organ var lagt niður. Mér líst vel á þetta.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur rekstur Sódómu gengið vel, enda hafa fjölmargar hljómsveitir stigið þar á stokk við góðar undirtektir.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×