Körfubolti

Hamarskonur fóru illa með Keflavík - fjórtán sigrar í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 17 stig fyrir Hamar.
Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 17 stig fyrir Hamar.
Hamar vann 32 stiga sigur á Keflavík, 95-63, í toppslag Iceland Express deildar kvenna í Hveragerði í dag. Hamarskonur hafa þar með unnuð alla fjórtán deildarleiki sína í vetur og eru með sex stiga forskot á Keflavíkurliðið þegar deildin skiptist upp. Snæfell vann tíu stiga sigur í Grindavík og var það þriðji sigur Snæfellskvenna í röð.

Hamar var með mikla yfirburði allan leikinn og vann alla leikhlutana með fjórum stigum eða meira. Hamar var þrettán stigum yfir í hálfleik, 40-27, en vann síðan þriðja leikhlutann 29-15 og eftir það var sigurinn nánast í höfn.

Slavica Dimovska var með 22 stig fyrir Hamar, Jaleesa Butler var með 21 stig og 18 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 17 stig. Jacquline Adamshick var með 23 stig og 13 fráköst hjá Keflavík og Birna Valgarðsdóttir kom næst með tíu stig.

Snæfell vann tíu stiga sigur á Grindavík í Grindavík, 73-63, í hinum leik dagsins. Grindavík var 16-15 yfir eftir fyrsta leikhlutann en Snæfell vann annan leikhlutann 22-15 og var því 37-31 yfir í hálfleik. Snæfellsliðið hélt síðan forustunni í seinni hálfleik og vann sinn þriðja deildarleik í röð síðan að Monique Martin kom til liðsins.

Monique Martin var með 36 stig og 11 fráköst fyrir Snæfell, Berglind Gunnarsdóttir skoraði 12 stig og tók 12 fráköst og Hildur Kjartansdóttir skoraði 10 stig. Crystal Ann Boyd var með 30 stig, 18 fráköst og 5 stoðsendingar hjá Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×