Körfubolti

Butler: Hef aldrei búið í litlum bæ áður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jaleesa Butler.
Jaleesa Butler. Mynd/Stefán

Jaleesa Butler var í dag valinn besti leikmaður fyrstu ellefu umferða Iceland Express-deildar kvenna en hún er lykilmaður í toppliði Hamars frá Hveragerði.

Hún er á sínu fyrsta tímabili hér á landi og reyndar utan heimalandsins, Bandaríkjanna. Hún hefur skorað að meðaltali 25,3 stig í leik og tekið þar að auki 15,5 fráköst.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig sem og félagið sjálft,“ sagði hún í samtali við Vísi í dag. „Ég er ánægð hjá félaginu enda erum við enn ósigruð. Ég tel að ég hafi bætt mig síðan ég byrjaði að spila með liðinu í haust.“

„Auðvitað kröfðust nýjar aðstæður einhverrar aðlögunar af minni hálfu en körfubolti er alltaf körfubolti og því tók það ekki langan tíma. Það er þó ýmislegt sem hefur komið mér á óvart en sumt ekki. Aðalatriðið er að mér líður vel.“

Butler er fædd og uppalinn í St. Louis í Missouri-fylki. „Ég hef aldrei áður búið í jafn litlum bæ og Hveragerði en það er allt í lagi - ég er hvort sem er svo leiðinleg að ég hangi mest innandyra,“ sagði Butler í léttum dúr.

Hún segist vera nokkuð bjartsýn fyrir síðari hluta tímabilsins. „Ég verð að vera það enda erum við ósigruð. Við tökum þó öll lið alvarlega og mörg eru nú að breyta til og styrkja sig. Við viljum bara halda áfram að vinna leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×