Viðskipti innlent

Afstaða Svía ræður miklu um framhaldið

Afstaða sænsku ríkisstjórnarinnar, og eftir atvikum sænska þingsins, til málefna Íslands ræður miklu um framvindu efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að áætlunin gangi eftir enda leiðarljós hennar út úr efnahagsþrengingunum. Segir í yfirlýsingu stjórnarinnar frá í gær að hún muni „freista þess að tryggja hnökralausa framvindu áætlunarinnar.“ Í því skyni verður rætt við forystumenn AGS, samstarfsþjóðirnar og hin Norðurlöndin og Pólland, sem hafa lánað Íslendingum peninga.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hófu embættismenn þegar í síðustu viku að setja sig í samband við erlenda starfsbræður til að undirbyggja frekari viðræður í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Næstu daga verður allur þungi starfsmanna utanríkisþjónustunnar á málinu; þeir munu einbeita sér að því að kynna sjónarmið íslenskra stjórnvalda og koma í veg í fyrir að niðurstaðan hafi áhrif á samskipti landsins við önnur ríki, alþjóðastofnanir og fjármálastofnanir.

Samkvæmt heimildum blaðsins hafa sænsk stjórnvöld verið varfærin í að lýsa afstöðu sinni en ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna sýnt málinu skilning. Er róið að því öllum árum að fá Svía til fylgilags enda litið svo á að fallist þeir á að tekið sé tillit til breyttra aðstæðna fylgi aðrar þjóðir í kjölfarið.

Á sínum tíma stóðu Svíar harðir á því að Íslendingar gengju frá Icesave-samningum áður en lán Norðurlandanna yrðu veitt og efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS hleypt af stokkunum.björn@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×