Innlent

Ljóst að fólk missir vinnuna hjá SpKef

Formenn samtaka samtaka sveitarfélaga á Vestfjörðum og Suðurnesjum hafa áhyggjur af yfirtöku Landsbankans á SpKef. Ljóst sé að fólk muni missa vinnuna.



SpKef rekur sextán útibú á landinu, þar af sjö á Vestfjörðum og sex á Suðurnesjum. Til samanburðar er Landsbankinn aðeins með eitt útibú á Vestfjörðum og þrjú á Suðurnesjum – þar af eitt í Leifsstöð.

„Það er ljóst að þetta mun fyrr en seinna leiða til þess að einhverjum af þeim sem starfa fyrir þessar stofnanir verður sagt upp. Þá fjölgar þeim enn þeim sem eru atvinnulausir – nóg er nú samt af þeim. Auðvitað hefur maður áhyggjur af þessu," segir Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, tekur í sama streng. „Það sem var áður Sparisjóður Vestfjarða [síðar SpKef] hefur verið með nokkuð mörg útibú hérna fyrir vestan og auðvitað hljótum við að hafa áhyggjur af framtíð þessara útibúa," segir hún. Stjórn Fjórðungssambandsins muni líklega taka málið fyrir á fundi sínum á morgun.

Um 150 manns starfa hjá SpKef, flestir í höfuðstöðvunum í Reykjanesbæ. Öll útibúin verða opnuð í dag en starfsmenn munu mæta á fund klukkan átta þar sem farið verður yfir stöðuna.

Greint var frá því á Stöð 2 í gær að viðskiptavinir SpKef hefðu tekið tugi milljóna út af reikningum sínum hjá sjóðnum á föstudag þegar yfirtakan spurðist út og óttast sé að fleiri muni gera slíkt hið sama í dag vegna andstöðu við Landsbankann. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að fyrir vestan hafi fjöldi fólks hætt viðskiptum við SpKef og snúið sér til Sparisjóðs Strandamanna.

Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir að með brotthvarfi SpKef úr samstarfi sparisjóðakerfisins um kaup á ýmissi sameiginlegri þjónustu vakni spurningar um rekstrarhæfi þeirra litlu sjóða sem eftir standi. Sparisjóðakerfið minnki um helming með brotthvarfi SpKef og því þurfi að fara að huga sameiningarmöguleikum. stigur@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×