Innlent

Afstaða til lóðaskila er óbreytt

Reykjavíkurborg hyggst ekki fara eftir úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og taka aftur við við einbýlishúsalóð hjóna í Úlfarsárdal og atvinnulóð Brimborgar á Esjumelum.

„Afstaða Reykjavíkurborgar er hin sama og áður; það sé enginn einhliða skilaréttur til staðar. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að sömu niðurstöðu og borgin hvað það varðar í desember," segir Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður.

Þótt ráðuneytið skorti heimildir til að leggja fyrir borgina að endurgreiða lóðirnar beinir það þeim tilmælum til borgarinnar að hún rétti stöðu lóðarhafanna þannig að þeir verði jafnsettir öðrum sem hafa fengið úthlutað byggingarrétti hjá borginni.

„Ráðuneytið getur ekki lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka við lóðunum og endurgreiða þær," bendir borgarlögmaður á og ítrekar að héraðsdómur hafi komist að þveröfugri niðurstöðu við sveitarstjórnarráðuneytið í dómsmáli í desember. Var þar um að ræða 297 milljóna króna atvinnulóð sem Léttkaup ehf. fengu úthlutað undir verslun í Hádegismóum í janúar 2007. Búist sé við að það mál gangi til Hæstaréttar. Miðað við hraða mála þar fáist endanleg niðurstaða jafnvel ekki fyrr en um eða eftir næstu áramót.

„Þannig að það eru engin óskapleg tímamót við þennan úrskurð ráðuneytisins," segir Kristbjörg Stephensen.- gar





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×