Innlent

Milljarði minna í leigubætur

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjar­stjóri í Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjar­stjóri í Hveragerði.

„Rúmlega 80 prósent þeirra sem þiggja húsaleigubætur, almennar og sérstakar, hafa tvær milljónir eða minna á ári í árstekjur. Þetta er því verulega vanhugsað útspil gagnvart þeim hópi sem á hvað erfiðast um þessar mundir," segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjar­stjóri í Hveragerði. „Það skýtur skökku við að skerða þessi framlög á sama tíma og ríkisstjórnin talar um að hjálpa þessum sama hópi með öllum tiltækum ráðum."

Á sama tíma og sveitarstjórnar­menn lýsa áhyggjum af hröðum vexti í útgreiðslu húsaleigubóta er gert ráð fyrir því að framlag ríkisins dragist saman um ríflega tuttugu prósent frá því sem greitt er til kerfisins í ár. Skerðingin samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nemur 600 milljónum króna en útlit er fyrir að framlög til húsaleigubótakerfisins lækki um milljarð þar sem sveitarfélögin verða að draga samsvarandi úr mótframlagi sínu.

Samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaga um verulega hækkun bótanna og aukna þátttöku ríkisins í fjármögnun rann út í vor. Í fjárlagafrumvarpinu er gengið út frá því sem aðhaldsráðstöfun að í nýju samkomulagi verði gerðar breytingar á kerfinu sem dragi úr útgjöldum sem nemur áætluðum umframútgjöldum ársins 2010.

Aldís segir nauðsynlegt að endur­skoða og breyta meginforsendum kerfisins í heild sinni miðað við þessar forsendur. Það sé blóðugt því kerfið er vel heppnað eins og það er, að hennar mati.

„Á sama tíma er verið að selja ofan af fólki og ræða um að Íbúðalánasjóður fari að leigja út húsnæði. Þegar stefnt er að því að koma á fót virkum og góðum leigumarkaði er ekki rétta leiðin að ráðast á einn hornstein hans sem eru húsaleigubæturnar," segir Aldís. Greiðslu húsaleigubóta segir hún hafa aukist til muna í hennar sveitarfélagi og efast ekki um að það sé eins víðar. „Það er mikil þörf og þetta er í raun sorglegt á tímum þegar við ættum miklu frekar að létta undir með fólki sem vill eða þarf að leigja sér húsnæði." - shá





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×