Innlent

Situr uppi með ónýta afmælisgjöf

SB skrifar
Barbara ásamt syni sínum með tölvuleikinn í hendinni.
Barbara ásamt syni sínum með tölvuleikinn í hendinni.

Barbara Þóra Kjartansdóttir keypti tölvuleik handa syni sínum í afmælisgjöf. Þegar litli drengurinn ætlaði að spila leikinn virkaði hann ekki og Barbara fór með diskinn aftur í búðina en henni til mikillar undrunar og ama - fær hún ekki að skila leiknum.

„Drengurinn var búinn að margbiðja okkur um þennan tölvuleik og við ákváðum að gefa honum hann þó við ættum varla fyrir honum. Svo opnar hann pakkann og hleypur beint að tölvunni en þá virkar diskurinn ekki," segir Barbara.

Hún segir þau hafa keypt tölvuleikinn hjá Elko í Kópavogi og þangað hafi þau farið til að skila leiknum og fá nýjan.

„Þeir vildu fá að skoða þetta mál og svo hringdi ung stúlka í mig í dag og sagði að það væri ekki hægt að endurgreiða diskinn. Þetta finnst mér fyrir neðan allar hellur."

Barbara segir að á sama tíma inn í búðinni hafi ung hjón skilað grilli sem hafði verið tekið úr pakkningunum og var grísugt og kámugt og það hafi verið lítið mál.

„En við megum ekki skila tölvuleiknum," segir Barbara. Hún segir þessar krónur sem fóru í leikinn ekki skipta mestu máli. Börnin læri sem fyrir þeim sé haft og þetta sé sorglegur lærdómur í réttlæti heimsins. Það hafi verið glaður drengur sem opnaði afmælisgjöfina þennan dag en nú tákni gjöfin einungis vonbrigði.

Vísir.is hafði ítrekað samband við Elko í dag en verslunarstjóri svaraði ekki skilaboðum um að tjá sig um fréttina.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×