Innlent

Ákvörðunin gæti tafist

Atkvæðagreiðsla á þýska þinginu Angela Merkel kanslari og aðrir þingmenn í kös við kjörkassann. nordicphotos/AFP
Atkvæðagreiðsla á þýska þinginu Angela Merkel kanslari og aðrir þingmenn í kös við kjörkassann. nordicphotos/AFP
Ný ákvæði í þýskum lögum gætu orðið til þess að þýska þjóðþingið fái ekki nægan tíma til að taka afstöðu til þess hvort hefja eigi aðildarviðræður Evrópusambandsins við Ísland áður en málið verður tekið fyrir á næsta fundi Leiðtogaráðs Evrópusambandsins dagana 25. og 26. mars, eða eftir aðeins hálfan mánuð.

Þetta verður í fyrsta sinn sem reynir á þetta ákvæði, sem kveður á um að ráðherrar í ríkisstjórn Þýskalands verði að hafa samráð við þingið áður en þeir taka þátt í ákvörðunum á vettvangi ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Samkvæmt þingsköpum þýska þingsins er hægt að afgreiða slík mál á einum þingfundi. Heimilt er þó að vísa máli til nefndar, ef einn þingflokkur eða fimm prósent þingmanna fara fram á það. Málið kæmi þá til kasta Evrópunefndar þýska þingsins, sem gæti sömuleiðis afgreitt málið á einum fundi.

Líklega myndu þó fleiri nefndir vilja hafa aðkomu að málinu, svo sem utanríkismálanefnd, og það gæti flækt afgreiðslu málsins og tafið hana. Lögin gefa þó kost á því, ef vilji er fyrir hendi, að afgreiða málið á sameiginlegum fundi allra þeirra nefnda sem vilja taka þátt í umræðunum.



Óvissan um afgreiðslu þingsins stafar fyrst og fremst af því að þetta verður í fyrsta sinn sem reynir á fyrrnefnt ákvæði í þýskum lögum um samráð ríkisstjórnar og þings í málefnum Evrópusambandsins. Þingið hefur að vísu alla möguleika til að afgreiða málið hratt, en hvorki í utanríkisráðuneyti Þýskalands né hjá þýska þjóðþinginu var í gær hægt að fá staðfestingu á því að þeir möguleikar verði nýttir. Það verði einfaldlega að koma í ljós, hvernig framkvæmdin verður í þetta sinn.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins bar þetta mál á góma í síðustu viku á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með Guido Westerwelle, hinum þýska starfsbróður hans í Berlín.

Á þeim fundi fagnaði Westerwelle skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um Ísland, þar sem mælt var með því að aðildarviðræður hefjist sem fyrst.

Sendinefnd frá þýska þinginu verður á Íslandi í dag og á morgun að ræða við ráðherra og flokksleiðtoga.

gudsteinn@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×