Innlent

Ráðherra lýsir stríði á hendur lúpínunni

Sigurður H. Magnússon, Sveinn Runólfsson, Svandís Svavars­dóttir og Jón Gunnar Ottósson kynntu í gær mikla stefnubreytingu varðandi ræktun alaskalúpínu. Fréttablaðið/Valli
Sigurður H. Magnússon, Sveinn Runólfsson, Svandís Svavars­dóttir og Jón Gunnar Ottósson kynntu í gær mikla stefnubreytingu varðandi ræktun alaskalúpínu. Fréttablaðið/Valli
Ræktun lúpínu á Íslandi verður stórlega takmörkuð frá því sem nú er, samkvæmt nýrri áætlun umhverfisráðuneytisins.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fól í nóvember í fyrra þeim Sveini Runólfssyni landgræðslustjóra og Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, að gera áætlun um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu og uppræta hana þar sem hún sé óæskileg. Niðurstaða þeirrar vinnu var kynnt á blaðamannafundi í umhverfisráðuneytinu í gær. Einnig var fjallað um plöntuna skógarkerfil sem eins og lúpínan reyndist útbreiddari á hálendinu og friðlýstum svæðum en áður var talið. Skýrsluhöfundar leggja til að setja þessum tegundum strangar skorður til að takmarka neikvæð áhrif þeirra en jafnframt nýta lúpínuna á völdum svæðum til landgræðslu og ræktunar.

Meðal annars er lagt til að gerð verði lagabreyting þannig að ræktun lúpínu verði algerlega bönnuð í yfir 400 metra hæð yfir sjó í stað 500 metra áður. Skipa á sérstaka aðgerðastjórn vegna baráttunnar við þessar plöntur sem fyrst voru fluttar til Íslands í kringum árið 1900 og eru nú farnar að drepa niður annað plöntulíf.

„Á ári líffræðilegrar fjölbreytni þarf að huga sérstaklega að þeim þeim þáttum sem varða ágengar tegundir. Þar hefur farið fremst í flokki alaskalúpínan,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

Sigurður H. Magnússon frá Náttúrfræðistofnun Íslands sagði áhrifaríkustu leiðina til að eyða lúpínu vera að úða hana með eitri. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri sagði aðspurður á fundum að sú aðferð væri ítarlega rannsökuð og myndi ekki valda skaða ef rétt væri staðið að verki.

Sauðfjárbeit og sláttur lúpínunnar eru tvær aðferðir sem einnig voru nefndar. Báðir vildu Sveinn og Sigurður þó fyrst og fremst höfða til almennings að vera meðvitaðan um óæskileg áhrif lúpínunnar.

„Lúpínan hefur alltaf fengið blóðið til að renna í fólki, einhverra hluta vegna,“ svaraði Svandís spurð hvort hún ætti jafnvel von á pólitískum deilum vegna hinnar nýju stefnu ráðuneytisins. „Bæði náttúruverndarsinnar og landgræðslusinnar hafa haft á þessu miklar skoðanir – eðlilega vegna þess að þarna er um mjög kraftmikla plöntu að ræða sem er frábær landgræðsluplanta en um leið mjög ógnandi við náttúrulegt umhverfi. Það sem ég er að freista þess að gera með þessari vinnu og þessari skýrslu er að leiða þessi sjónarmið saman og leita leiða til að stemma stigu við lúpínunni þar sem hún á alls ekki heima.“

gar@frettabladid.is
Útbreiðsla lúpínu Alaskalúpínan finnst nú víða um land. Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×