Innlent

Hópuppsögn á Flateyri: „Staðan er skelfileg“

Valur Grettisson skrifar

„Það lá fyrir þegar við keyptum eignirnar af Kambi að þetta yrði gríðarlega erfitt," segir Kristján Erlingsson, stjórnarmaður og einn af aðaleigendum Eyrarodda á Flateyri, en fjörtíu og tveimur starfsmönnum fiskvinnslunnar var sagt upp í dag.

Eyraroddi keypti fiskvinnsluna árið 2007 eftir að Kambur hætti þar störfum. Þá var um 120 manns sagt upp. Sjálfur segir Kristján að fiskvinnslan hafi verið keypt með það að markmiði að verja störf á landsbyggðinni.

„En frá því í fyrrahaust hefur ekki verið nokkur grundvöllur fyrir þessu," segir Kristján og bendir á að fyrirtækið sé kvótalaust og að ekki hafi verið unnt að leigja kvóta vegna breyttra laga. Í tilkynningu frá félaginu segir að rekstri fiskvinnslunnar sé hætt vegna hráefnisskorts.

Eyraroddi er langstærsti vinnustaðurinn á Flateyri. Fyrir eru tvær harðfiskvinnslur en þar vinna mun færri, eða um tíu einstaklingar. Alls búa 250 á Flateyri og því ljóst að uppsagnirnar eru blóðtaka fyrir atvinnulífið í þorpinu. Kristján segir þær að auki skekja undirstöðurnar í Ísafirði sem fer með sveitarstjórnarmál í þorpinu.

„Staðan er skelfileg," segir Kristján og bætir við að viðbrögð starfsmanna hafi verið þung þegar þeir fengu fregnirnar í dag.

Spurður hvað taki við svarar Kristján því til að fyrirtækið rói enn öllum árum að því að finna ný tækifæri, gangi það eftir vonast hann til þess að fiskvinnslan geti endurráðið hluta starfsmanna eða alla.

„En vegna óvissunnar þá er okkar öndunarrými búið," segir Kristján að lokum.




Tengdar fréttir

Öllu starfsfólki Eyrarodda sagt upp

Öllu starfsfólki fiskvinnslufyrirtækisins Eyrarodda hf., á Flateyri var sagt upp störfum í dag. Um er að ræða 42 starfsmenn. Uppsagnirnar taka gildi nú um mánaðarmótin. Ástæða uppsagnanna er fyrst og fremst viðvarandi hráefnisskortur og erfiðleikar í rekstri sem af þeim skorti leiðir, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu sem vísað er til á fréttavefnum BB.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×