Innlent

Þorláksbúð tekin í gagnið næsta sumar

Tölvuteikning af endanlegu útliti Þorláksbúðar sem nú rís við Skálholtskirkju.
Tölvuteikning af endanlegu útliti Þorláksbúðar sem nú rís við Skálholtskirkju.
Endurbygging Þorláksbúðar við Skálholtskirkju er nú í fullum gangi og verður lokið fyrir næsta sumar ef áætlanir ganga eftir. Þorláksbúðarfélagið, félag áhugamanna um endurbygginguna, hefur lengi haft þetta að markmiði, en nú er verkefnið komið á fullt og hleðslu veggja nærri lokið.

Búðin er kennd við Þorlák helga Þórhallson, verndardýrling Íslands, sem var biskup í Skálholti undir lok 12. aldar, en óvíst er hvenær hún var fyrst byggð. Árni Johnsen alþingismaður er meðal þeirra sem hafa unnið að málinu og segir í samtali við Fréttablaðið að Þorláksbúð hafi fylgt Skálholti í gegnum aldirnar. „Nema síðustu hundrað árin hefur hún verið rúst. Hún var ýmist notuð sem skrúðhús, geymsla, kirkja eða dómkirkja þegar stóru kirkjurnar brunnu.“

Veggir búðarinnar eru hlaðnir í streng, eins og það er kallað, þar sem torf er lagt milli grjótlaga. Yfirumsjón með hleðslunni hefur Víglundur Kristjánsson hleðslumeistari. Byggingin er fjármögnuð með frjálsum framlögum fyrir­tækja og opinberu fé og segir Árni að ef söfnun muni ganga vel sé raunhæft að Þorláksbúð verði komin í gagnið næsta sumar.

Byggingin verður um 35 fermetrar að flatarmáli þegar hún er fullbúin og mun þá væntanlega hýsa bæði kirkjulegar athafnir sem og menningaruppákomur.

Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, er einnig í hópi aðstandenda verkefnisins og segir við Fréttablaðið að með þessu sé gamall draumur að rætast. „Mig hefur lengi dreymt um endurreisn þessarar búðar,“ segir Sigurður og bætir því við að Þorláksbúð muni opna sýn manna inn í fortíðina og verði einnig hagnýt fyrir starfsemi kirkjunnar.

„Það er ekki neitt nothæft skrúðhús við Skálholtskirkju og búðin verður örugglega notuð þannig. En hún mun einnig minna almennt á sögu Skálholts og forna íslenska byggingargerðarlist, því allar byggingar hérna í Skálholti eru alveg nýjar og minna lítið á fyrri tíma.“

Hleðsla útveggjanna hvílir að hluta til á gömlu tóftunum sem eru norðaustan við Skálholtskirkju. Standa þær nokkuð inn af nýju veggjunum og munu gestir Þorláksbúðar því geta setið á þeim líkt og bekkjum.

thorgils@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×