Innlent

Hálfur milljarður í fráveitu Bláa lónsins

Bláa lónið flæðir yfir bakka sína. Annaðhvort verður fráveitulögn til að koma vatninu til sjávar lögð ofan jarðar eða grafin í jörðu. Framkvæmdin mun kosta um 500 milljónir króna.
fréttablaðið/Anton
Bláa lónið flæðir yfir bakka sína. Annaðhvort verður fráveitulögn til að koma vatninu til sjávar lögð ofan jarðar eða grafin í jörðu. Framkvæmdin mun kosta um 500 milljónir króna. fréttablaðið/Anton

HS Orka þarf að fara út í um fimm hundruð milljóna króna framkvæmdir á næstu árum til að veita umframvökva úr Bláa lóninu til sjávar. Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu er yfirborð lónsins orðið of hátt þar sem niðurfallsholur eru stíflaðar og flæðir jafnvel upp á veg á köflum.

Lónið er í landi Grindavíkur, en Róbert Ragnarsson bæjarstjóri segir í samtali við Fréttablaðið að samkomulag hafi tekist við HS Orku um að bregðast við vandanum með tvennum hætti. „Annars vegar verður lögð lögn frá lóninu ofan í niðurdælingarholu sem er ofan í sprungu og á að leysa málið til næstu mánaða og ára. Endanlega lausnin er hins vegar sú að lögð verður fráveitulögn frá orkuverinu, vestur fyrir [fjallið] Þorbjörn, inn á iðnaðarsvæði sem er á skipulagi hjá okkur og þaðan til sjávar.“

Vegagerðin og heilbrigðiseftirlit eiga enn eftir að samþykkja þessar áætlanir, en Róbert segir að ef engar athugasemdir verði gerðar, megi gera ráð fyrir að tillagan verði samþykkt af bæjar­yfirvöldum í Grindavík. HS Orka mun bera allan kostnað af framkvæmdum þar sem það er þeirra að sjá til þess að frárennsli sé viðunandi.

Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku, segir í samtali við Fréttablaðið að þessi útlát hafi vissulega áhrif. „En þetta veltir fyrirtækinu engan veginn. Langtímaframkvæmdin hefur hangið yfir okkur og við höfum gert áætlun sem fer núna fyrir næstu fjárhags- og framkvæmdaáætlun.“

Albert segir að framkvæmdin muni taka að minnsta kosti eitt ár þar sem ekki sé enn búið að taka ákvörðun um nákvæma útfærslu. „Ef við byrjuðum í dag yrði það ekki fyrr en einhvern tíma á árinu 2011 sem þessi varanlega lausn yrði komin í gagnið.“

Albert segir að um tvær útfærslur sé að ræða, annaðhvort verður lögnin grafin í jörð eða lögð ofanjarðar, en hann vonast til að þess að fyrir áramót verði til reiðu forhönnun á endanlegu mannvirki.

Eins og kunnugt er, hefur staðið mikill styr um eignarhald á HS Orku, en Albert segist ekki hafa heyrt nokkuð um það hvort nýr eigandi, Magma Energy, hyggist gera kröfu á fyrri eigendur sökum þessara útgjalda, en hann eigi erfitt með að ímynda sér það. „Eigandinn veit af þessu en það hefur ekki eitt neikvætt orð fallið.“

Á næstunni verður gripið til bráðabirgðaaðgerða til að losa stíflur í niðurfallsholum.

thorgils@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×