Innlent

Yfirborð Bláa lónsins orðið alltof hátt

Tvær tillögur hafa komið fram frá Verkís um hvernig hægt sé að veita umframvökva úr Bláa lóninu út í sjó.
Tvær tillögur hafa komið fram frá Verkís um hvernig hægt sé að veita umframvökva úr Bláa lóninu út í sjó. Mynd/Valgarður Gíslason

Vatnsborð Bláa lónsins er orðið allt of hátt og grípa þarf til varanlegra aðgerða til að losna við umframvökva. HS Orka og Grindavíkurbær vinna nú að lausn málsins.

Ástæðan fyrir því að yfirborð lónsins fer hækkandi er að hraunglufur í og við lónið eru stíflaðar. Þetta gerist vegna svifagna í vökvanum sem aukast þegar hann kólnar. Niðurrennslisholur hafa verið boraðar á tveimur stöðum til þess að koma lónvökvanum niður í sjó, en þær eru einnig nánast stíflaðar. „Við höfum fengið ráðgjöf um hvernig sé best að haga þessu,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, en bæði bærinn og HS Orka hafa fengið slíka ráðgjöf.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, sendi bænum bréf í byrjun júlí um málið. Þar kemur fram að verið sé að bora nýjar holur en líklegt þyki að þær muni einnig stíflast „á tiltölulega skömmum tíma“. Því sé þörf á varanlegri lausn og fer hann þess á leit við bæinn að hafin verði samvinna og samráð um að leysa málið. Það er nú í vinnslu og segir Róbert að fundað verði í næstu viku og vonandi tekin ákvörðun um framhaldið.

„Það þarf annars vegar að finna bráðabirgðalausn og hins vegar lausn til framtíðar. Framtíðarlausnin er það kostnaðarsöm að það tekur einhvern tíma að finna út úr því.“

Eina varanlega leiðin er að veita lónvökvanum til sjávar. HS Orka fékk verkfræðiþjónustuna Verkís til að gera minnisblað með tillögum um framkvæmd á því. Sú fyrri gerir ráð fyrir því að núverandi niðurrennslissvæði verði notað og þrýstilögn verði lögð frá því meðfram Grindavíkurbraut. Stofnkostnaður við slíka framkvæmd yrði 105 milljónir króna auk þess sem árlegur rekstrarkostnaður yrði fimm milljónir króna.

Í seinni tillögunni er lagt til að lagt verði í göngustíginn sem er frá bílastæði að inngangi Bláa lónsins. Þaðan yrði lögnin í gegnum bílastæðið að Grindavíkurbraut og áfram að niðurfallsholum. Kostnaður við þessa tillögu yrði 78 milljónir í stofnkostnað auk tveggja milljóna í árlegan rekstrarkostnað. Þá kemur fram að óháð tillögunum þurfi að gera niðurrennslisholur og fleira, sem kostar 60 milljónir króna.

Verkís mælir með seinni tillögunni og segir hana mun auðveldari í rekstri og ódýrari, þótt hún kalli á mikla jarðvinnu og rask um tíma.

thorunn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×