Innlent

Þyrla Magnúsar seld úr landi

Lúxusþyrla Magnúsar Kristinssonar, útgerðar- og athafnamanns í Vestmannaeyjum, sem hefur verið þjónustuð af Þyrluþjónustunni, hefur verið seld og var flutt úr landi í morgun eftir að hafa verið á sölu í eitt og hálft ár.

Þyrlan TF-HMK sem Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, hefur iðulega flogið á milli lands og eyja og í ýmsar styttri ferðir innanlands er af gerðinni Bell 430. Þyrlan hefur nú verið auglýst til sölu í átján mánuði hjá vefsíðunni Helicopter Exchange. Það var svo í morgun sem hún kvaddi íslenska grundu því hún hefur verið seld til útlanda.

Þyrlan er vel búin og með fuglheldum framrúðum, skyggðum hliðargluggum og gullhúðuðum dyrahúnum og dyraþrepum. Vélin tekur átta farþega og var nýskráð árið 1999. Gangverð á slíkum vélum er í kringum 4-5 milljónir dollara eða rúmlega hálfur milljarður króna.

Þyrlan góða var í miklu uppáhaldi hjá Magnúsi og veggi skrifstofu hans í eyjum prýddu myndir af gripnum.

Í samtali við fréttastofu í dag sagðist Magnús hafa selt vélina fyrir þónokkru síðan, en hann vildi ekki gefa upp hversu mikið hann hefði fengið fyrir hana. Magnús sagðist í dag reiða sig á Herjólf til að skreppa í land og aðrar samgöngur sem í boði væru.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×