Innlent

Guðlaugur Þór: Hefur ekki hugleitt afsögn

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur ekki hugleitt að segja af sér þingmennsku þrátt fyrir háværa kröfu um að þeir sem þáðu hæstu prófkjörsstyrkina víki af Alþingi. Þetta segir hann í viðtali við Fréttablaðið í dag.

„Nei, ég hef ekki gert það. Enda held ég að þegar menn skoða mín verk af einhverri sanngirni þá geti þeir ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en að ég hafi verið að vinna með hag almennings að leiðarljósi og svo sannarlega ekki látið neina aðra hagsmuni þvælast fyrir því," segir hann.

Guðlaugur þáði 24,8 milljónir króna í styrki fyrir kosningarnar 2007. Enginn þáði hærri styrki samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar. Guðlaugur segir að þetta segi þó ekki alla söguna.

„Ríkisendurskoðun skoðaði ekkert þessa styrki. Það er ekki hennar hlutverk að sannreyna eða fara ofan í þær upplýsingar sem henni eru sendar," segir Guðlaugur. Hægt sé að skoða málin og síðan draga þá ályktun að aðrir hafi farið svipaða leið og hann, í það minnsta.

Guðlaugur hvetur til þess að menn fari fljótlega að ljúka uppgjörinu og horfa til framtíðar. Mikilvægt sé þó að farið verði í tvær umfangsmiklar rannsóknir í anda rannsóknarinnar á bankahruninu; annars vegar rannsókn á því hvernig tekið hefur verið á skuldurum og skuldugum fyrirtækjum og hins vegar rannsókn á Icesave-málinu.

Guðlaugur segir mótmælin sem verið hafa við heimili hans helst beinast gegn börnum hans og vonar að hann verði sá síðasti sem verður fyrir barðinu á slíkum aðgerðum.- sh / sjá síðu 8







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×