Innlent

Ekkert lát á skjálftahrinunni

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Mynd/Stefán Karlsson

Mælir við rætur Eyjafjallsjökuls í landi Þorvaldseyrar, sýnir að land hefur hækkað um fimm sentímetra frá áramótum. Ekkert lát er á skjálftahrinunni í jöklinum, sem staðið hefur í hálfan annan sólarhring, og er skjálftatíðnin sú mesta sem mælst hefur til þessa. Viðbragðshópar Almannavarna sitja nú á fundi um málið.

Jarðskjálfti upp á rúmlega þrjá á Richter varð undir jöklinum á sjöunda tímanum í morgun og svo varð annar upp á tæpa þrjá á níunda tímanum, en áður höfðu þeir ekki mælst yfir tveimur á Richter. Nú mælast 12 til 15 skjálftar á klukkustund.

Viðbragðshópar Almannavarna og starfsmenn eldgosadeildar Veðurstofunnar komu saman til fundar klukkan ellefu í morgun og sveitarstjórnarmenn í grennd við jökulinn fara yfir neyðaráætlanir um rýmingu bæja og fleira. Heimamenn, sem fréttastofa hefur rætt við í morgun, segjast meðvitaðir um hættuna, en að þeir haldi þó ró sinni. En hverjar ætli að líkurnar á gosi séu?

„Það eru miklu meiri líkur á því að þetta leiði til eldgoss heldur en fyrir nokkrum dögum. Eftir því sem þetta heldur lengur áfram aukast líkurnar á gosi. Það er við því búist að það gjósi í Eyjafjallajökli á næstu vikum þess vegna en það þarf ekkert að vera. Meirihlutinn af svona hrinum deyr út áður en til goss kemur," segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Ef gos verður, er talið líklegt að mikil bráðnun verði í jöklinum og muni vatn annaðhvort flæða norður af jöklinum niður í Þórsmörk og út í Markarfljót, eða suður af jöklinum, niður Fjallagljúfur og niður á undirlendið. Síðast gaus í Eyjafjallajökli árið 1821.








Tengdar fréttir

Enn skelfur undir Eyjafjallajökli

Jarðskjálfti upp á rúmlega þrjá á Richter varð undir Eyjafjallajökli á sjöunda tímanum í morgun, en hingað til hafa skjálftarnir verið undir tveimur á Richter í skjálftahrinunni sem staðið hefur í rúman sólarhring. Tíðni skjálftanna er sú mesta sem mælst hefur á þessum slóðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×