Innlent

Slagsmál á Útvarpi Sögu: Þingmenn gengu á milli

Andri Ólafsson skrifar
Eiríkur Stefánsson og Guðmundur Franklín er á innfelldu myndinni.
Eiríkur Stefánsson og Guðmundur Franklín er á innfelldu myndinni.

Ráðist var á útvarpsmanninn Guðmund Franklín Jónsson í húsakynnum Útvarps Sögu í dag. Guðmundur var nýkominn úr hljóðveri þar sem hann hafði stýrt þætti um sjávarútvegsmál. Sá sem réðst á hann heitir Eiríkur Stefánsson og er fyrrverandi formaður verkalýðsfélagsins á Fáskrúðsfirði

Eiríkur hafði á meðan þættinum stóð hringt inn og borið upp spurningar en Guðmundur Franklín sleit símtalinu.

Þegar þættinum lauk var Eiríkur kominn í húsakynni Útvarps Sögu og réðst þá á Guðmund Franklín.

Samkvæmt upplýsingum Vísis, ýtti Eiríkur hraustlega við Guðmundi og gerði sig líklegan til að slá hann. Þingmaðurinn Illugi Gunnarsson og Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi þingmaður, höfðu verið gestir Guðmundar í þættinum og brugðust þeir snarlega við og náðu að koma í veg fyrir frekari átök.

Eiríkur lét hins vegar ekki þar við sitja og grýtti tölvu Guðmundar Franklíns í gólfið.

Vísir náði tali af Guðmundi fyrir skömmu og staðfesti hann að handalögmál hefðu átt sér stað. Hann kveðst hins vegar ekki ætla að kæra árásina en segir að Eiríkur eiga bersýnilega í miklum vandræðum með skapið sitt.

Eiríkur vildi ekki veita Vísi viðtal við vinnslu fréttarinnar.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×