Innlent

Icelandair velur milli Airbus A320 og Boeing 737-800

Ákvörðun um kaup á nýrri þotutegund fyrir flugflota Icelandair verður tekin fyrir í stjórn félagsins síðar í mánuðinum. Rætt er um kaup á allt að fimm þotum og stendur valið milli tveggja tegunda.

Í tvo áratugi hefur hin bandaríska Boeing 757 verið aðaltegundin í flota Icelandair og þar með sú flugvél sem flestir Íslendingar hafa flogið með til útlanda. Hún tekur í kringum 200 farþega en þykir full stór fyrir smærri áfangastaði og því hefur félagið um nokkurt skeið áformað að fá minni þotu sem tæki í kringum 150 farþega.

Sigþór Einarsson, aðstoðarforstjóri Icelandair Group, segir tvær tegundir nú til skoðunar. Annars vegar minni gerð frá Boeing, í 737 línunni, og þá 800-gerðin, en hins vegar kemur til greina að snúa viðskiptunum til evrópsku Airbus flugvélaverksmiðjanna og er þar horft til Airbus A320.

Áformað er að fá tvær til fimm þotur og að þær verði annaðhvort keyptar eða leigðar til Icelandair. Þær yrðu notaðar í flug á norrænar borgir eins og Björgvin, Þrándheim, Stafangur og Gautaborg en einnig á borgir eins og Brussel og Glasgow. Boeing 757 yrði eftir sem áður aðalvél flotans.

Ákvörðun var frestað síðastliðið haust vegna óvissu í efnahagsmálum en nú er stefnt að því að flugvélakaupin verði tekið fyrir á næsta stjórnarfundi Icelandair síðar í mánuðinum.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×