SUNNUDAGUR 19. FEBRÚAR NÝJAST 13:57

Snorri og Saga trúlofuđ

LÍFIĐ

Ponzi- og pýramídasvik

 
Skođun
06:00 16. JANÚAR 2010
Ponzi- og pýramídasvik
Jared Bibler skrifar

Ponzi-svik vísa til hvers kyns svika eða blekkinga sem byggjast á því að sífellt þarf að fá inn nýja fjárfesta til þess að geta greitt þeim fjárfestum sem fyrir eru. Innstreymi nýrra peninga er eina leiðin til að halda kerfinu gangandi. Þessi svik hafa oft yfirbragð löglegra viðskipta en það er tap á þeim og til þess að þau gangi upp þarf stöðugt að fá aukið fjármagn.

Innan verðbréfasvika eru Ponzi-svik flokkuð sem tilboðssvik. Í þeim felst tilboð um sviksamlegt fjárfestingartilboð til fjárfesta. Ponzi-svik eru einnig kölluð pýramídasvik vegna þess að hægt er að hugsa sér uppbyggingu svikanna eins og pýramída þar sem grunnurinn þarf alltaf að verða breiðari og breiðari til þess að bera þau lög sem eru fyrir ofan.


Upphaflegu Ponzi-svikin

Carlo Ponzi (sem kallaði sig „Charles") kom sem innflytjandi til Boston frá Ítalíu árið 1903 og var aleiga hans þá tveir dollarar og fimmtíu sent. Árið 1920 var hann orðinn þekktur viðskiptajöfur og fjárfestir. Í raun og veru voru viðskipti hans ekkert nema risavaxin pýramídasvik. Upp frá því hafa svik af þessu tagi oft verið nefnd í höfuðið á Ponzi sem er talinn einhver mesti svikahrappur í sögu Bandaríkjanna. Ponzi rakaði til sín milljónum dollara frá grunlausum fjárfestum og notaði fé nýjustu fjárfestanna til að borga þeim sem vildu innleysa fé sitt.

Svikin sem Ponzi beitti voru í sjálfu sér afar einföld. Í þá daga var hægt að kaupa það sem hét alþjóðlegur svarmiði í einu landi og skipta honum fyrir frímerki í öðru landi. Ef það var ódýrara að senda bréf á einum stað en öðrum var fræðilega hægt að hagnast á verðmuninum með því að kaupa ódýra svarmiða til dæmis á Ítalíu og skipta þeim fyrir verðmætari miða í Bandaríkjunum. Ponzi sagði fjárfestum sínum að hann væri að afla þeim fjár með þessum einföldu viðskiptum. Raunveruleikinn var sá að það var erfitt að skipta þessum miðum og það var heldur ekki til nóg af þeim í heiminum til þess að bera uppi þá stærð sem Ponzi-fjárfestingarsjóðurinn náði að lokum. Hann tók einfaldlega fé frá sífellt fleiri fjárfestum og borgaði hverjum þeim sem vildu fá fjárfestingu sína til baka með fjármunum nýju fjárfestanna og lofaði undraverðri ávöxtun, eða 50% á aðeins 45 dögum. Fé streymdi inn í sjóðinn frá öllu Nýja-Englandi. Fólk tæmdi sparireikninga sína og veðsetti heimili sín og afhenti Ponzi fé sitt. Hann tók sér góðan hluta fjárins, flutti á sveitasetur, keypti vænan hlut í banka í Boston og þegar móðir hans heimsótti hann frá Ítalíu pantaði hann fyrir hana glæsilegan einkaklefa á áætlunarskipi.

Hrikta tók í áætluninni sumarið 1920 þegar fjölmiðlar og laganna verðir urðu æ forvitnari um það hvernig Ponzi hafði eignast peninga sína. Í ljós kom að í stað þess að vera forríkur skuldaði Ponzi sjö milljónir dollara (eða u.þ.b. 74 milljónir dollara í dag). Verkefnið skilaði aldrei hagnaði og var í raun og veru rekið með miklu tapi. Margir bankareikningar Ponzis voru bornir uppi af háum lánum. Hanover Trust, Boston banki sem Ponzi stjórnaði, var tekinn yfir af yfirvöldum í Massachusetts og kom það í veg fyrir að Ponzi gæti hrint lokaáætlun sinni í framkvæmd. Hún var sú að taka fé úr hirslum bankans til þess að borga óánægðum fjárfestum út. Ponzi fór að lokum í fangelsi og fjárfestar hans töpuðu meirihluta af sparifé sínu - fengu innan við 30 sent af hverjum dollar.


Sameiginleg einkenni

Ponzi-svik eru oft byggð á tengslasvikum, það er svikum sem beinast að hópi einstaklinga sem eru í einhvers konar sambandi við svikarann. Með svikunum er því verið að misnota gagnkvæmt traust sem ríkir í samfélagi. Einstaklingarnir eru oft úr sama trúarhópi, eiga sameiginlegan uppruna eða land og svikarinn. Svikarinn getur sagt: „Ég er ekki einhver ókunnugur maður. Við tilheyrum sama samfélagi." Af þessum sökum geta Ponzi-brögð orðið mjög erfið viðureignar fyrir eftirlitsaðila. Fjárfestarnir sem verið er að svíkja eru hollari hópnum sínum en eftirlitsaðilanum. Jafnvel þegar peningarnir eru horfnir vilja sumir samt ekki trúa því að þeim hafi verið stolið. Fórnarlömbin verða í mörgum tilvikum „hrifin" af svikaranum og koma honum til varnar, sama hvaða sönnunargögn þeim eru sýnd sem sanna hið gagnstæða.

Þegar Ponzi-bragð hrynur lýsir svikarinn því oft yfir opinberlega að hann hafi aldrei hagnast neitt persónulega. Sannleikurinn er sá að bragðarefurinn hagnast allan tímann með því að eyða fé í munað jafnóðum og það kemur inn. „Það er auðvelt að eyða peningum sem maður á ekki," segir sérfræðingur í rannsóknum á svikum hjá bandaríska verðbréfaeftirlitinu (Securities and Exchange Commision -S EC). „Það er ótrúlegt hvað þetta fólk eyðir peningum hratt." Svikarar hafa í seinni tíma Ponzi-svikum eytt annarra manna fé í vín, bíla, einkaflugvélar, sumarleyfi, skartgripi og lúxushíbýli og skrifstofur fyrir sig sjálfa.

Hverir eru það sem beita Ponzi brögðum? Svikararnir eru oft fólk sem dreymir um mikinn auð og hefur farið með eigin rekstur í þrot einu sinni eða oftar. Þetta geta einnig verið smábraskarar sem reyna á hverjum degi að hafa fé af öðrum með margs konar svikum hvort sem er í spilum eða með öðrum aðferðum. Almennt eru þeir sem beita Ponzi-svikum fólk sem á auðvelt með að ávinna sér traust annarra, oft með því að hagnýta sér græðgi, óheiðarleika, trúgirni eða einfaldleika fórnarlamba sinna.
Ponzi-svik byrja ekki alltaf sem áform um að blekkja. Viðskiptaáætlun sem gengur ekki upp getur breyst í Ponzi-svik þegar þeir sem stunda viðskiptin reyna að fela fyrra tap með því að fá sífellt meira fé í viðleitni sinni til að flýja fortíðina.

Sannleikurinn er sá að það er ekki hægt að halda Ponzi-svikum gangandi til lengdar. Þetta er viðskiptamódel sem hlýtur alltaf að hrynja að lokum. Einföld stærðfræði segir að ekki er hægt að safna nýju fé endalaust í gegnum neitt kerfi. Svikin eru dæmd til þess að bregðast þar sem fjöldi nýrra fjárfesta sem þarf til að halda þeim gangandi verður brátt meiri en fólksfjöldinn í viðkomandi landi. Hrun verðbréfamarkaða verða oft til þess að stöðva Ponzi-svik þar sem fjárfestar þurfa fé og vilja allir í einu fá peningana sína.


Stig Ponzi-svika

Ponzi-svik hafa þrjú þróunarstig, ef svo má að orði komast. Fyrst er myndunarstigið þar sem fyrstu fjárfestar eru lokkaðir að með loforði um litla áhættu og mikinn hagnað. Á þessu stigi hefur svikarinn beint samband við fjárfesta. Svikarinn er oft áberandi og kemur fram opinberlega til þess að efla álit sitt og trúverðugleika. Þar má nefna að kosta íþrótta­félög eða gefa háar upphæðir til góðgerðarmála. Svikarinn leitast eftir því að fá mikla umfjöllun í blöðum og á „hverjir voru hvar"-síðum til þess að auka sýnileika sinn sem hann getur svo nýtt sér við að afla meira fjár. Næsta stig er fjáröflunarstig þar sem nýir fjárfestar koma til skjalanna um leið og áætlunin skilar fyrstu arðgreiðslunum. Þátttakendur í fyrstu umferðum fjárfesta hagnast ótrúlega og orðsporið hvetur fólk til fjárfestinga. Til þess að lengja líf áætlunarinnar fléttar svikarinn oft bindingu fjár inn í hana þar sem fjárfestar geta ekki hreyft fé sitt í ákveðinn tíma. Hann hvetur einnig fjárfesta til að velta peningum sínum aftur inn í áætlunina til að auka hagnað sinn. Þegar hér er komið sögu þarf svikarinn ekki lengur að markaðssetja sig þar sem áætlunin er vel þekkt. Hann getur tekið upp á því að loka kerfinu fyrir fleiri þátttakendum til þess að skapa það andrúmsloft að það sé einungis fyrir útvalda. Þegar hér er komið sögu er fólk jafnvel farið að biðja hann um að taka við peningum sínum og telur sig heppið að fá að vera með.

Að lokum kemur að því að kerfið hrynur. Þetta gerist þegar eldri viðskiptavinir vilja taka út meira fjármagn en það fé sem kemur frá nýjum fjárfestum. Ytri atburðir eins og fall á verðbréfamörkuðum geta orðið til þess að valda áhlaupi á áætlunina. Ríkir fjárfestar sem voru hjá Bernie Madoff sem höfðu tapað fé á fjárfestingum í öðrum hlutabréfum hafa kannski hugsað: „Mér er búið að ganga vel með Bernie svo ég ætti kannski að hætta á meðan ég er í gróða og leggja peningana inn á bankabók." Neikvæð umfjöllun um önnur verkefni getur einnig orðið til að verkefni hrynja. Fréttir um Madoff-svikin urðu til þess að starfsmenn að minnsta kosti einnar áætlunar fóru að velta því fyrir sér hvort þeir störfuðu fyrir svikara.


Hćttumerki

Hættumerkin sem benda til Ponzi-svika eru mörg. Eitt það helsta er stöðug og mikil arðsemi sem sveiflast lítið á milli tímabila. Oft er fjárfestingaráætlunin illskiljanleg eða þá að hún er í sumum tilvikum hulin. Jafnvel þó að sagt sé frá fjárfestingaráætluninni eiga aðrir erfitt með að leika hana eftir. Það eru oft alvarlegir hagsmunaárekstrar innan félagsins sem framfylgir áætluninni eða þá að sama félag gegnir margvíslegum hlutverkum sem eru ósamrýmanleg eins og það að velja bæði fjárfestingu og meta hana. Rekstur er oft laus í reipum og honum sinnt af litlum hópi sem einbeitir sér að bókhaldi, endurskoðun er í höndum lítilla og óþekktra endurskoðunarfyrirtækja. Þá eru dæmi um að þeim sem starfa í Ponzi-félaginu sé skipt í deildir og samskipti þeirra séu takmörkuð með til dæmis innréttingum eða takmörkunum á flæði upplýsinga. Ponzi-svik ganga undir mörgum fleiri nöfnum þar á meðal eru „Forex" og Madoff-svik, sem er nafn sem varð til árið 2008 til heiðurs nýjasta og frægasta svindlinu.
Höfundur er rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins.


Deila
Athugiđ. Allar athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra er ţćr rita. Vísir hvetur lesendur til ađ halda sig viđ málefnalega umrćđu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til ađ fjarlćgja ćrumeiđandi eđa ósćmilegar athugasemdir og ummćli ţeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

 

MEST LESIĐ

  • Nýjast á Vísi
  • Mest Lesiđ
  • Fréttir
  • SKOĐUN
  • Viđskipti
  • Lífiđ
Forsíđa / Skođanir / Skođun / / Ponzi- og pýramídasvik
Fara efst