Innlent

Almenn ánægja með störf forseta Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson

Tæplega tveir af hverjum þremur sem afstöðu tóku í skoðanakönnun Fréttablaðsins telja að Ólafur Ragnar Grímsson hafi staðið sig vel í embætti forseta Íslands.

Alls sögðust 64,5 prósent að forsetinn hefði staðið sig vel í starfi, en 35,5 prósent sögðu hann hafa staðið sig illa.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir forsetann geta ágætlega við unað að tveir af hverjum þremur segist ánægðir með störf hans almennt.

Niðurstaðan er í raun mjög góð fyrir Ólaf Ragnar sé tímasetningin höfð í huga, segir Gunnar Helgi. Forsetinn hafi tekið mjög umdeilda ákvörðun síðastliðinn þriðjudag, og ekki hefði verið við því að búast að 90 prósent væru ánægð með störf hans.

Í könnun Fréttablaðsins hinn 27. febrúar í fyrra var einnig spurt um afstöðu fólks til forsetans. Spurningarnar eru ekki fullkomlega samanburðarhæfar, en þar sögðust rúmlega 44 prósent aðspurðra ánægð með störf forsetans, 20 prósent hvorki ánægð né óánægð, og um 36 prósent sögðust óánægð með störf Ólafs Ragnars.

Talsverður munur er á afstöðu kynja til starfa forsetans. Tæplega 70 prósent kvenna sögðust ánægð með störf hans, en rúmlega 59 prósent karla. Þá er stuðningur við störf forsetans meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Alls sögðu tæplega 49 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins að forsetinn hefði staðið sig vel í starfi. Tæplega 73 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins voru á sömu skoðun.

Um 59 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru ánægð með störf Ólafs Ragnars, og tæplega 67 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna. Ekki var tölfræðilega marktækt að reikna afstöðu stuðningsmanna Borgarahreyfingarinnar eða Hreyfingarinnar.

Hringt var í 1.100 manns fimmtudaginn 7. janúar. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Telur þú að Ólafur Ragnar Grímsson hafi staðið sig vel í embætti forseta Íslands? Alls tóku 81,7 prósent afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×