Innlent

Sjálfstæðismenn ætla að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.

Þingflokkur sjálfstæðismanna hyggst leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun þegar þing kemur saman að nýju. Frá þessu greinir Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður á bloggsíðu sinni í dag.

Sigurður Kári segir að það hafi verið með algjörum ólíkindum að fylgjast með Jóhönnu Sigurðardóttur, nýjum forsætisráðherra minnihlutastjórnarinnar, lýsa því yfir í fjölmiðlum í gær að vegna seinagangs ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi frumvarp um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun ekki náð fram að ganga í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. Þessar ásakanir Jóhönnu Sigurðardóttur í garð fyrrum ráðherra og þingflokks Sjálfstæðisflokksins séu rangar.

Sigurður Kári segir að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hafi lagt frumvarp þessa efnis í þávarandi ríkisstjórn Íslands, en þingflokkur Samfylkingarinnar tekið frumvarpið í gíslingu. Það hafi hins vegar verið samþykkt í byrjun janúar úr þingflokki sjálfstæðismanna, fullbúið til afgreiðslu á Alþingi. Nú hafi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tekið þá ákvörðun á þingflokksfundi sínum í dag að leggja málið fram á Alþingi. Það verður Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra sem leggur frumvarpið fram.

Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, verður svo fyrsti flutningsmaður frumvarps um greiðslu séreignasparnaðar. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að greiða út séreignarsparnað til greiðslu skulda. Árni sagði við fjölmiðla í dag að þetta frumvarp hafi verið tilbúið í fjármálaráðuneytinu í síðustu viku.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×