Innlent

Skoða hliðargreiðslur frá orkufyrirtækjum

Virkjanir í neðri hluta Þjórsár hefðu áhrif á vatnsstreymi í fossinum. Umhverfisráðherra er með greiðslur til sveitarfélagsins frá Landsvirkjun í skoðun.fréttablaðið/anton
Virkjanir í neðri hluta Þjórsár hefðu áhrif á vatnsstreymi í fossinum. Umhverfisráðherra er með greiðslur til sveitarfélagsins frá Landsvirkjun í skoðun.fréttablaðið/anton

Umhverfisráðherra mun taka greiðslur Landsvirkjunar til Skeiða- og Gnúpverjahrepps til skoðunar. Samgönguráðuneytið úrskurðaði nýverið að svipaðar greiðslur fyrirtækisins til Flóahrepps hefðu stangast á við lög. Ekki sé heimild í lögum fyrir því að aðrir en sveitarfélag beri kostnað vegna aðalskipulags.

Í tilviki Flóahrepps var um að ræða greiðslur fyrir skipulagsvinnu, sem fyrirtækið innti af hendi. Fram hefur komið að fyrirtækið muni einnig sjá um uppsetningu gsm-kerfis í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að ljóst sé að umhverfið í kringum þessa samninga hafi ekki verið í lagi. Ábyrg stjórnvöld hljóti að skoða þau mál.

„Það þarf að skoða alla samninga, ekki bara þessa heldur öll samskipti orkufyrirtækja og sveitarfélaga. Fyrst og fremst verður þetta skoðað út frá úrskurði samgönguráðuneytisins. En mér finnst líklegt að þetta setji allar slíkar ákvarðanir í nýtt samhengi.“

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent umhverfisráðherra bréf og hvatt hana til að skoða aðkomu Landsvirkjunar að ákvörðunum sveitarfélaga síðastliðin tíu til fimmtán ár.

Þá leggja samtökin til að skipulagsbreytingar vegna virkjana í neðri hluta Þjórsá verði gerðar ómerkar vegna vanhæfis sveitarstjórnarmanna. Svandís segist fara yfir ábendingar samtakanna með jákvæðum huga.

svandís svavarsdóttir

Greiðslur af þessum toga hafa þekkst um nokkra hríð. Skemmst er að minnast samnings Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss sem tengdust virkjunum á Hellisheiði þar sem fyrirtækið greiddi fyrir nýja fjárrétt og hesthús og fyrir að annast viðhald mannvirkja. Þá skuldbatt fyrirtækið sig til að sjá um lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir króna og leggja ljósleiðara í Þorlákshöfn.

katrín júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir að setja þurfi reglur um slíka samninga þannig að allt sé uppi á borðinu fyrirfram. „Kostnaðarskipting verður að vera skýr áður en gengið er til samninga.“ Katrín minnir þó á að lítil sveitarfélög geti lent í vandræðum með hinn mikla kostnað sem fylgir slíkum framkvæmdum. Því geti þátttaka annarra í þeim kostnaði verið eðlileg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×