Innlent

Ókeypis bílastæðum fækkað

Reykjavíkurborg hefur tekið upp græna samgöngustefnu sem felur meðal annars í sér að færri starfsmenn borgarinnar fá ókeypis bílastæði.
 Fréttablaðið/Vilhelm
Reykjavíkurborg hefur tekið upp græna samgöngustefnu sem felur meðal annars í sér að færri starfsmenn borgarinnar fá ókeypis bílastæði. Fréttablaðið/Vilhelm

Gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar verður fækkað á næstu misserum. Ráðhúsið og skrifstofa borgarinnar í Borgartúni eru dæmi um mannmarga vinnustaði borgarinnar sem líklegt er að finni fyrir því.

Breytingarnar eru hluti af „grænni samgöngustefnu" sem Reykjavíkurborg hefur tekið upp og miðar að því að hvetja starfsmenn borgarinnar til að fara um með umhverfisvænni hætti. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hversu mörgum stæðum verður fækkað, að sögn Gísla Marteins Baldurssonar, formanns umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Stefnan verði útfærð á hverjum vinnustað borgarinnar fyrir sig. „Við munum hvetja okkar starfsmenn til að koma til vinnu öðruvísi en á bíl. Hluti af því er að fækka ókeypis bílastæðum við vinnustaðina en reyna á móti að styrkja þá sem vilja koma með öðrum hætti til vinnu."

Gísli telur að starfsmenn borgarinnar muni ekki líta á fækkun gjaldfrjálsra bílastæða sem kjaraskerðingu. „Það er ekki markmiðið að skerða kjör heldur einmitt að bjóða möguleika sem koma betur út fyrir starfsmanninn fjárhagslega. Allir sem vinna í miðbænum búa við gjaldtöku og það er almenn sátt í samfélaginu að svo sé. Er endilega eðlilegt að annað gildi um starfsmenn borgarinnar?" spyr Gísli.

- hhs



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×