Innlent

Tíu stærstu skulduðu rúmlega 1500 milljarða

Helga Arnardóttir skrifar

Tíu stærstu viðskiptavinir Kaupþings skulduðu bankanum rúmlega fimmtán hundruð milljarða króna samkvæmt lánayfirliti frá því í lok september í fyrra. Þetta eru tæplega þreföld fjárlög ríkissjóðs.

Þetta kemur fram í 210 blaðsíðna glæruyfirliti yfir stærstu lántakendur Kaupþingssamstæðunnar sem lagt var fyrir stjórnarfund bankans rétt fyrir hrun í fyrra eða þann 25. september. Glærurnar voru settar á heimasíðuna Wikileaks sem ætlað er að hýsa leka af þessu tagi.

Í lánayfirlitinu eru félög tengd Bakkabræðrum, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tchenguiz bræðrum með stærstu lánin. Tekið skal fram að lánin eru reiknuð miðað við núverandi gengi.

Félög tengd Bakkbræðrum fengu rúmlega þrjú hundruð þrjátíu og tvo milljarða króna í lán frá Kaupþingi og fékk Exista hf tæplega helming þeirrar upphæðar eða rúmlega hundrað og fjörutíu milljarða. Í lánayfirlitinu kemur fram að stærstur hluti lánanna sé ótryggður.

Þá fengu félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni þrjú hundruð tuttugu og sex milljarða í lán.

Tchenguiz bræður fengu rúmlega tvö hundruð áttatíu og sex milljarða í lán frá Kaupþingi en Róbert Tchenguiz situr í stjórn Existu.

Þá vekur athygli að Skúli Þorvaldsson sem kenndur er við Hótel Holt er stærsti lántakandi Kaupþings í Lúxemborg og fékk tæplega hundrað fjörutíu og þrjá milljarða króna í lán.

Félög tengd Ólafi Ólafssyni svo sem Kjalar, Samskip og fleiri fengu tæplega hundrað fjörutíu og tvo milljarða í lán.

Þá fengu félög tengd Kevin Stanford sem er viðskiptafélagi Baugs rúmlega hundrað og þrjá milljarða.

Antonios Yerelemou sem er viðskiptafélagi Bakkabræðra fékk sextíu og sex milljarða.

Félög tengd Jákubi Jakobsen sem á meðal annars Rúmfatalagerinn, Ilvu og fleiri fyrirtæki fengu tæplega fimmtíu og átta milljarða

Félög tengd Jóni Helga Guðmundssyni eiganda Byko fengu rúmlega fjörutíu og sex milljarða.

Þá fékk Saxhóll rúma fjörutíu og tvo milljarða í lán. Samtals eru þetta rúmlega fimmtán hundruð fjörutíu og fjórir milljarðar króna sem félögin fengu lánað frá Kaupþingi. Það jafngildir tæplega þreföldum fjárlögum ríkissjóðs fyrir þetta ár.

Auk annarra sem fengu stór lán hjá bankanum voru stoðtækjafyrirtækið Össur, 39,5 milljarða, Samvinnutrygginasjóðurinn, 30,2 milljarða, félög tengd Björgólfsfeðgum, 22,7 milljarða og félög tengd Þorsteini M. Jónssyni, 13,2 milljarða.

Hér að neðan má sjá samantekt fréttastofu upp úr skýrslunni, en að neðan má einnig nálgast skýrsluna í heild sinni.








Tengdar fréttir

Milljarðalán bræðra fjármagnaði fasteignir og einkaflugvél

Lýður Guðmundsson, annar Bakkavararbræðra, tók lán hjá Kaupþingi í Lúxemborg upp á 12,75 milljónir punda, um 2,6 milljarða króna, til að fjármagna húsakaup sín í London. Lýður er í persónulegri ábyrgð fyrir láninu.

Ætla ekki að hjálpa Kaupþingi að fela óhreint tau

Í svarbréfi sem forsvarsmaður heimasíðunnar WikiLeak sendi lögmannateymi Kaupþings þverneitar hann að taka upplýsingar um lántakendur bankans út af síðunni líkt og lögmennirnir höfðu beðið hann um.

Kaupþing fer fram á lögbann

Ríkisútvarpinu hefur verið tilkynnt um að væntanleg sé lögbannsbeiðni frá Kaupþingi til að stöðva frekari birtingu upplýsinga úr leyniglærum Kaupþings um skuldunauta bankans, að því er fram kemur á fréttavef RÚV.

Yfirlýsing Kaupþings: Upplýsingar um lán brot á bankaleynd

Verið er að rannsaka uppruna upplýsinga um lántakendur Kaupþings sem birtust á heimasíðunni WikiLeak fyrir sólarhring, að því er fram kemur í yfirlýsingu bankans. Fjármáleftirlitinu hefur verið gert viðvart um málið.

Keypti Haga á 30 milljarða

Fjárfestingarfélagið Gaumur, sem er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, fékk þrjátíu milljarða króna lán til að kaupa 95 prósenta hlut í Högum af Baugi Group í gegnum félagið 1998 ehf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×