Innlent

Vandamál Íslands verður bara leyst á Íslandi

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra tók til máls í umræðum um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á Alþingi fyrir stundu. Hann sagði meðal annars að fyrir sitt leyti teldi hann ólíklegt að Ísland fengi miklar undanþágur eða sérreglur í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Það byggði hann á reynslu annarra þjóða og nefndi þar Noreg þar sem ljóst hefði verið að þeir þyrftu undanþágur á sviði sjávarútvegs ef þjóðin ætti að samþykkja niðurstöðuna.

„Ég tel meiri líkur á því en minni að samningsniðurstaðan verði ekki aðgengileg fyrir Ísland og þjóðin muni hafna henni. Þar með er málið úr sögunni og kominn botn í það mál og við þurfum þá ekki að hafa það hangandi yfir okkur eins og þetta hefur verið," sagði Steingrímur.

Hann sagði að öðru leyti hefðum við um nóg annað að hugsa. „Ég vara við því að þetta mál trufli okkur of mikið og ég ítreka það sem ég hef sagt áður að vandamál Íslands verður bara leyst á Íslandi."

Í kjölfar ræðu Steingríms var hann spurður um sína afstöðu gagnvart tillögu ríkisstjórnarinnar og var það Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem spurði fjármálaráðherra.

„Það kemur engum við hvernig atkvæði manna falla, frekar en þeir vilja sjálfir ef afstaða þeirra er klár þá gera það það. Stjórnarflokkarnir hafa samþykkt þessa tillögu, ætli það svari ekki spurningunni," sagði Steingrímur.

Þorgerður kom strax í kjölfarið og sagði að nú væri Bleik brugðið þegar hæstvirtur fjármálaráðherra hefði ekki skoðun á sinni eigin tillögu.

„Ég reyndi hinsvegar að rýna í orð fjármálaráðherra og skyldi orð hans þannig að hann ætli að segja já við tillögunni."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×