Innlent

Olíuleitartilboð opnuð klukkan tvö

Tilboðin tvö sem bárust í olíuleit á Drekasvæðinu verða opnuð hjá Orkustofnun klukkan tvö í dag. Upplýst hefur verið um annað tilboðið en spenna ríkir um hvaðan hitt tilboðið kom.

Talsmenn norska olíufélagsins Sagex Petrolium, sem að fimmtungi er í eigu Íslendinga, staðfestu fyrri helgi í samtali við fréttastofuna að þeir ættu annað tilboðið en það var lagt inn í samstarfi við íslenskt félag, Lindir Petrolium. Það kemur svo í ljós klukkan tvö hver hinn aðilinn er sem sækir um sérleyfi til að vinna olíu í íslenskri lögsögu.

Hjá Orkustofnun hafa menn einungis sagt að það séu tveir traustir aðilar sem sótt hafi um. Drekasvæðinu var skipt upp í yfir eitthundrað reiti sem boðnir voru út og gátu aðilar sótt um tvo reiti hver, sem ná að hámarki yfir 800 ferkílómetra samtals. Ef báðir aðilar sækja um sama svæði hefur sá forgang sem metinn verður hæfari en þar verður horft til atriða eins og reynslu, fjárhagsgetu og rannsóknaráætlunar.

Einnig verður horft til þess hvað viðkomandi eru tilbúinn að greiða í íslenskan mennta- og rannsóknarsjóð sem stofnaður verður til að efla þekkingu Íslendinga á sviði olíuleitar. Eftir að tilboðin hafa verið opnuð hefur Orkustofnun frest fram í október til að úthluta sérleyfunum. Byrjað verður á því að úthluta rannsóknarleyfi til allt að tólf ára með möguleika á framlengingu um fjögur ár en síðan vinnsluleyfi til allt að þrjátíu ára. Það er því í haust verið að úthluta sérleyfum til allt 46 ára.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×