Innlent

Nauðungaruppboðum fjölgar um 180%

Auglýstum nauðungaruppboðum á eignum landsmanna hefur fjölgað um nærri 180 prósent á þessu ári. „Við erum á efnahagslegu Tjernobilsvæði," segir hæstaréttarlögmaður, sem segir nauðungaruppboð á heimilum fólks dapurlegar samkomur.

Fréttastofu er kunnugt um hjón um fimmtugt sem bíða nú gjaldþrots. Þau keyptu sér hús í nágrenni höfuðborgarinnar fyrir tveimur árum á 25 milljónir króna. Þau náðu að öngla saman fjórum milljónum og tóku síðan lán hjá Sparisjóði upp á 21 milljón.

Húsið er í dag metið á 18-20 milljónir en lánið stendur í 26 milljónum. Nú eiga þau því ekki svo mikið sem eina þakrennu í húsinu. Þau hefðu tekið því hundsbiti ef ekki hefðu fallið á þau önnur skuld. Uppkomnir synir þeirra höfðu keyptu sér hvor sinn bílinn á myntkörfuláni. Mamma þeirra var ábyrgðarmaður. Bílalánin fóru í vaskinn, þeir gátu ekki borgað og SP fjármögnun leysti bílana til sín. Eftir stendur skuld upp á fjórar milljónir - sem móðir þeirra getur ekki borgað.

„Ég taldi nú að þeir myndu láta þar við sitja, svona sérstaklega í ljósi þess að það er talað um að sýna skuldurum einhvern skilning. En nú hafa þeir lagt fram 250 þúsund krónur til þess að fá konuna gerða gjaldþrota formlega," segir Björn Þorri.

Þessi hjón hafa gefist upp og ætla að flytja af landi brott. En þau eru ekki ein í súpunni. Árið 2006 voru 590 eignir einstaklinga auglýstar til nauðungaruppboðs. Á næstu tveimur árum fjölgaði þeim um 65%. Á þessu ári er þegar búið að auglýsa nauðungaruppboð á 189 íbúðum einstaklinga. Þegar meðaltal síðustu þriggja ára er framreiknað út þetta ár, hefur auglýstum nauðungaruppboðum því fjölgað um 179%.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×