Viðskipti innlent

Aðildarviðræður við ESB nauðsyn til að fá svör við spurningum

Jónas H. Haralz fyrrum bankastjóri og efnahagsráðgjafi segir að það sé nauðsynlegt að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið til að fá skýr svör um hvað það hefði í för með sér.

Þetta kom fram í máli Jónasar í þættinum Silfri Egils í Sjónvarpinu í hádeginu. Jónas segir að umræðunni um aðildina að ES hafi verið haldið í herkví undanfarin ár og eilífu pexi án þess að menn vissu hvaða kjör væru í boði. Og hann telur að það myndi mjög fljótt koma í ljós í aðildarviðræðum hvort aðildin væri álitlegur kostur eða ekki.

Aðspurður um hvort hann teldi ekki að með aðild að ES væru Íslendingar að afsala sér fullveldi sínu. Hann svaraði því á þá leið hvort ekki mætti spurja þær þjóðir sem aðild eiga að ES hvort þær teldu sig hafa afsalað sér fullveldinu. "Myndum við ekki auka fullveldi okkar með auknu alþjóðlegu samstarfi?" spyr Jónas.

Fram kom í máli Jónasar að sjálft peningakerfið í landinu væri í uppnámi og við því þyrfti að bregðast. Spurningin væri hvort hægt væri að halda kerfinu áfram og þá í bættu formi en þeirri spurningu þyrfti Seðlabankinn að svara.

Jónas telur ljóst að skortur á samræmingu milli ríkisins og Seðlabankans væri stór hluti vandans og spurði hvort vilji væri fyrir því að endurskoða peningakerfið og ná fram nauðsynlegri samræmingu. Það væri eðlilegt að Seðlabankinn svaraði þeirri spurningu en það hefði bankinn ekki gert.

Jónas telur að það hafi verið mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Það hefði gerst vegna trúnaðarbrests milli sérfræðinga stofnunarinnar og stjórnmálamanna. "En í slíkum tilvikum leggur maður ekki stofnunina niður heldur skiptir um fólk," segir Jónas.

Jónas telur einnig að við núverandi aðstæður í efnahagslífinu sé það "afar varhugavert" að ætla að nota stóriðju og aðrar stórar framkvæmdir til að laga stöðuna. Að ná stöðugleika og góðri stjórn á efnahagslífinu væri hið eina rétta í stöðunni.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×