Erlent

Blóðugt glæpagengjastríð framundan í Danmörku

Lögreglan í Danmörku telur að blóðugt stríð sé framundan milli Hells Angels annarsvegar og glæpagengja af annari kynslóð innflytenda í Danmörku hinsvegar. Átök milli þessara gengja hafa stigmagnast á undanförnum vikum.

Samkvæmt frásögn í Extra Bladet hafa fjögur til fimm af stærstu glæpagengjum innflytjendanna haldið tvo til þrjá fundi á Kaupmannahafnarsvæðinu til að ræða stöðuna sem er komin upp.

Átökin milli þessara glæpagengja hófust í miðjum ágúst síðastliðnum er hinn 19 ára gamli Osman Nuri Dogan var skotin niður með Kalashnikov-vélbyssu í Tingbjerg hverfinu. Talið er að þar hafi verið að verki meðlimir í AK81 sem er stuðningsklúbbur Hells Angels í Danmörku.

Síðan Osman var myrtur hefur ítrekað komið til átaka milli þessara aðila. Nú síðast í vikunni sem leið er skothríð dundi á klúbbhúsi Hells Angels á Amager.

Ekstra Bladet hefur heimildir fyrir því að á síðasta fundi glæpagengja innflytjendanna, sem haldinn var á Österbru á mánudaginn var, hafi verið á milli 40 og 60 glæpamenn vopnaðir skammbyssum og vélbyssum. Þar komu fram háværar raddir um að réttast væri að leggja öll klúbbhús Hells Angels í borginni í rúst.

Talið er að hin alræmda Blågårds-plads klíka geri allt sem hún geti til að æsa inmnflytjendurnar gegn Hells Angels en klíkan hefur slegist um fíkniefnamarkaðinn í Kaupmannahöfn við Hells Angels allt frá því að Pusher-street var lokað í Kristjaníu.

Ove Dahl yfirmaður morðdeildar Kaupmannahafnarlögreglunnar segir að því miður séu engin teikn á lofti önnur en þau að ástandið muni versna að mun á næstu vikum og mánuðum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×