Innlent

Ramses fer í sturtu þrisvar á dag

Nanna Hlín skrifar
Paul Ramses
Paul Ramses

Paul Ramses bíður nú niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins í Róm á meðan kona hans og barn dvelja hér á landi. Ramses segir frekar erfitt að vera í Róm ekki aðeins sé erfitt að vera fjarri fjölskyldu sinni heldur sé einnig mjög heitt þar. „Það er mun heitara hér en ég er vanur, það er meira að segja heitara hér en í Keníu. Ég þarf að fara í sturtu þrisvar á dag en í Keníu þurfti ég aldrei að fara í sturtu" segir Ramses.

Katrín Theódórsdóttir, lögfræðingur hans lagði fram kæru til dómsmálaráðuneytisins fyrir tæpum tveimur vikum vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar um að synja því að hælisumsókn hans yrði tekin til umfjöllunar hér á landi. 

Ef dómsmálaráðuneytið ákveður að hnekkja ákvörðun Útlendingastofnunar getur Ramses komið aftur til Íslands og verið hér á meðan stofnunin metur hvort hann fái stöðu flóttamanns. Ef ráðuneytið hins vegar staðfestir ákvörðun Útlendingastofnunar þá verður Ramses að leita hælis á Ítalíu.

Þegar Ramses frétti af rigningunni á Íslandi sagðist hann vel geta hugsað sér rigningu í Róm og bað um að fá smá sendingu af íslensku rigningunni.

Ramses segist drepa tímann á Ítalíu með því að reyna að læra ítölsku. „Það er samt mjög erfitt að reyna að læra þegar maður er svona stressaður. Ég reyni einnig að fara í göngutúra hérna í hverfinu þar sem ég bý, en það er bara svo heitt úti."

Ramses nefnir að sér hefði verið sagt að kæruferlið hjá dómsmálaráðuneytinu tæki tíma.

„Ef dómsmálaráðherrann kæmist fljótlega að niðurstöðu yrði ég hins vegar mjög þakklátur." sagði Ramses að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×