Innlent

Íslendingar eiga Norðurlandamet í neyslu transfitusýru

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir

Í grein í 24 stundum í dag var fjallað um bann við neyslu hertra fita, sem eru betur þekktar sem transfitusýrur, í New York fylki í Bandaríkjunum. Íslendingar eiga Norðurlandamet í neyslu hertra fita og neyta svipað magn af þeim og Austur-Evrópubúar og Bandaríkjamenn. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er mælt með að neyslu transfitusýra fari ekki yfir 2 grömm á dag en hún er 3,6 grömm á dag að meðaltali á Íslandi.

Tillaga um slíkt bann var lögð fyrir á síðasta þingi og var Siv Friðleifsdóttir fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Í samtali við Vísi í dag sagði Siv að ekki hafi náðst að leggja málið fram á síðasta þingi en hún ætlaði að endurflytja það í haust. ,,Ég tel ráðlegt að farið yrði dönsku leiðina í takmörkun á transfitusýrumagni en hún gengur út á að ekki sé meira en 2% hert fita af fitumagni tiltekinnar vöru," sagði Siv.

Samkvæmt upplýsingum frá Siv getur það hlutfall farið allt upp í 60% hér á landi. Hún benti á að ef neytt væri 5 grömm af hertri fitu á dag þá væri 25% meiri líkur á hjarta-og æðasjúkdómum og því myndu slíkar reglur þýða sparnað í heilbrigðisgeiranum.

Ástæða þess að svo óhollar fitur eru notaðar er að sögn Sivjar sú að geymsluþol vörunnar eykst verulega þegar fitan er hert. Fitur þessar eru helst að finna í vörum sem börn og unglingar sækjast mikið í eins og snakk, sælgæti, kökum og kexi. Einnig eru þær að finna í vörum eins og smjörlíki og steikingarfeiti en Siv benti á í því samhengi að töluvert væri búið að ná meðaltalsneyslunni niður á Íslandi meðal annars vegna þess að búið væri að breyta innihaldi smjörlíkis.

Þegar Danir settu sín lög var reynt að kæra þá til Evrópudómstóls þar sem talið væri um viðskiptahindrun að ræða en dómstóllinn þótti nægar vísindalegar sannanir liggja fyrir skaðsemi fitanna þannig að málið var dregið tilbaka. ,,Sumir vilja fara þá leið að setja merkingar á vörur en þær eru ekki til staðar á Íslandi í dag, en ég held að það væri auðveldara fyrir fólk að hafa skýrar reglur um þetta en þurfa alltaf að stauta sig fram úr merkingum," sagði Siv að lokum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×