Lífið

Árni Johnsen - fær sér tvær pulsur í einu brauði

SB skrifar
Árni segist finna fyrir eftirspurn fyrir sínum kröftum á þingi.
Árni segist finna fyrir eftirspurn fyrir sínum kröftum á þingi. Vísir/GVA
Þingmaðurinn Árni Johnsen fær sér alltaf tvær pulsur í sama brauðið þegar hann snæðir á Bæjarins besta í hádeginu. Hann segist þó ætla að láta pulsurnar vera þegar hann fagnar útboði á Suðurstrandavegi í dag - enda bjóða Sjálfstæðismenn upp á þriggja rétta veislu í tilefni dagsins.

„Jú, það er rétt. Ég fæ mér oft tvær pulsur í sama brauðið,“ segir Árni Johnsen sem er vanur því að fara sínar eigin leiðir. „Þetta er bara í réttu hlutfalli við brauðið. Og svo fæ ég mér bara tómat og sinnep. Mikið sinnep - svona eins og Clinton.“

Árni segir pulsurnar á Bæjarins bestu mjög góðar. „Þær eru alveg spes. Svo er pulsuvagninn á Selfossi mjög góður. Þar fær maður besta sinnep á landinu og allskyns fína rétti - hamborgara og laukhringi.“

Dagurinn í dag er merkisdagur fyrir Árna. Í tilefni af útboði á Suðurstrandavegi sem mun tengja hringveginn milli Grindavíkur og Þorlákshafnar slá Sjálfstæðismenn upp veislu.

„Sjálfstæðismenn í Reykjavík bjóða upp á humarsúpu í ráðhúsinu klukkan eitt, svo býður bæjarstjórn Hafnarfjarðar upp á tertu klukkan hálf þrjú, og Sjálfstæðismenn í Grindavík klára daginn með sjávarréttarsúpu. Þannig að það er þriggja rétta veisla í þremur bæjarfélögum.“

Árni fær sér því trúlega ekki pulsu í dag - eða pulsutvennu eins og Árna Johnsen pulsan verður trúlega kölluð í framtíðinni. Og fer þá á stall með hinni frægu Clinton pulsu sem komst í heimsfréttirnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×