Innlent

Mátti ekki mynda undirskrift

SB skrifar
Össur Skarphéðinsson vildi ekki kastljós fjölmiðla þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu í morgunn.
Össur Skarphéðinsson vildi ekki kastljós fjölmiðla þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu í morgunn. MYND/AP
Ljósmyndaranum Gunnari V. Andréssyni var meinað að mynda þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Alcoa og Norðurþings í Iðnaðarráðuneytinu í morgunn.

Gunnar er einn reyndasti fréttaljósmyndari landsins og þótti uppákoman miður skemmtileg. ,,Við fengum að mynda þegar þeir voru að koma fram eftir að skrifað var undir. Mér finnst þetta mjög merkilegt og furðuleg ákvörðun hjá Össuri sem forðast vanalega ekki kastljós fjölmiðlanna."

Vísir ræddi við Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmann Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra, sem brást ókvæða við þegar hann var spurður út í málið.

,,Hvaða andskotans máli skiptir einhver undirskrift," sagði hann hvassyrtur - ekki hafi verið verið boðað til blaðamannafundar vegna undirskriftarinnar. ,,Einhverjir fjölmiðlar fengu veður af þessu og Fréttablaðið bað í gær um að fá að mynda undirskriftina."

Spurður hvert svarið hefði verið við bón Fréttablaðsins endurtók Einar: "Við boðuðum ekki til blaðamannafundar."

Nýverið gaf Blaðamannafélag Íslands út yfirlýsingu þar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra var harðlega gagnrýnd fyrir að reyna að ritstýra umfjöllun í seinna ísbjarnarmálinu.

Þórunn takmarkaði aðgang fjölmiðla að hræi ísbjarnarins af þeirri ástæðu að myndir gætu skaðað ímynd landsins. ,,Allir tilburðir til þess að takmarka aðgang fjölmiðla að fréttaviðburðum, til dæmis með því að hindra myndatökur, fela í sér tilraunir til ritskoðunar," sagði í ályktun Blaðamannafélags Íslands.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×