Innlent

Síminn stuðlar að ábyrgari Netnotkun

Síminn hefur ákveðið að bjóða ADSL viðskiptavinum sínum á einstaklingsmarkaði ókeypis aðgang að Websense. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Websense sé „ein besta netvörn sem völ er á í heiminum í dag." Lausnin hefur fengið nafnið Netvari Símans og er veigamikill liður í að börn geti leitað sér upplýsinga og skemmtunar á Netinu á jákvæðan og öruggan hátt um leið og Netvarinn ver þau gegn viðsjárverðu efni.

SAFT, sem er netverkefni Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra, fagnar sérstaklega þessari auknu þjónustu Símans en SAFT hefur lengi unnið að fræðslu og forvörnum um örugga notkun Netsins og annarra miðla. „Nýlegar rannsóknir sýna að mikill meirihluti foreldra hefur rætt við börn sín um öryggi á Netinu og er umhugað um þær hættur sem fylgt geta netnotkun barna," segir María Kristín Gylfadóttir, formaður Heimils og skóla en bætir við að það sé alls ekki markmið átaksins að banna alfarið netnotkun heldur þvert á móti að kenna börnum að sækja þangað fróðleik og skemmtun á öruggan og jákvæðan hátt. „Við teljum netvörn á borð við Websense stórt skref í átt til þess að vernda börn og unglinga ásamt því að nú geta foreldrar með beinum hætti stýrt hversu opið Netið er fyrir börnin." segir María.

Í tilkynningu kemur fram að nýleg könnun SAFT á netnotkun barna og unglinga hafi leitt í ljós að 49% barna hafa heimsótt klámsíður af slysni og 27% hafa gert það af ásettu ráði. Af þeim sem nota spjallrásir á Netinu segja 41% barna að fólk sem þau hafa kynnst á Netinu hafi beðið þau að hitta sig augliti til auglitis. Þar af hefur 21% þeirra barna sem fara á spjallrásir hitt í eigin persónu einhvern sem þau kynntust á Netinu.

„Við gerum okkur grein fyrir hættum þeim sem felast í notkun á Netinu. Það er hluti af samfélagslegri ábyrgð Símans að bjóða viðskiptavinum okkar að nýta sér Netvara Símans og með því styðja við það góða starf sem SAFT stendur fyrir," segir Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs Símans.

„Síminn mun setja Websense á allar ADSL tengingar hjá viðskiptavinum sínum á einstaklingsmarkaði og munu notendur sjálfir geta stýrt því hversu mikið lausnin síar út af Netinu með því að fara inn á þjónustuvef Símans og merkja við lokunarmöguleika. Þannig geta foreldrar til að mynda lokað fyrir síður sem innihalda klámfengið efni, lokað fyrir spjallsíður eða síður sem innihalda fjárhættuspil," segir Anna Björk. „Það er okkur mikilvægt að svara kröfum viðskiptavina um aukið öryggi á Netinu og ætlum við því að veita viðskiptavinum okkar þessa þjónustu þeim að kostnaðarlausu. Þannig leggjum við okkar að mörkum til að verja börn og unglinga gegn sumu af því óæskilega efni sem er að finna á Netinu."

Anna Björk segir slíka netvörn einnig henta fyrirtækjum en Netvarinn verður einnig í boði fyrir fyrirtæki gegn gjaldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×