Innlent

Hægt að spara milljónatugi með láni í erlendri mynt

Hægt er að spara milljónatugi á því að taka lán í erlendri mynt nú þegar kjarasamningar ASÍ og atvinnurekenda heimila fólki að semja um að fá hluta af launum í erlendum gjaldmiðli. Áttatíu þúsund manns hafa nú þessa heimild í sínum samningum.

Aldrei áður hefur í íslenskum kjarasamningum verið sérstaklega samið um að fólk geti fengið hluta af launum í útlenskum gjaldmiðli. Tvær leiðir eru í boði, annars vegar að fá erlendan gjaldmiðil inn á reikninginn eða að tengja hluta af laununum við gengi á öðrum gjaldmiðli. Þessi heimild mun ekki vera háð því að fyrirtækið sem þú vinnur hjá hafi tekjur í erlendum gjaldmiðli.

Með himinháa vexti á fasteignalánum bankanna er því ekki ólíklegt að einhverjir af þessum 80 þúsund sem samið var fyrir hugsi sér gott til glóðarinnar og reyni að semja við yfirmanninn um hluta launa í evrum til dæmis, og taka síðan húsnæðislán í evrum. Því þar með er gengisáhættan fokin, eina áhættan eru vaxtabreytingar því breytilegir vextir eru á erlendu lánunum.

En hverju skyldi það muna? Fréttastofa Stöðvar 2 fékk Kaupþing til að reikna það út fyrir sig, svona eins og hægt er, því erfitt er að spá um framtíðina.

Hún Mist ætlar að kaupa sér þriggja herbergja íbúð á 20 milljónir og þarf 16 milljónir að láni til 40 ára. Ef hún tekur íslenskt verðtryggt jafngreiðslulán, væri hún að greiða röskar 93 þúsund krónur í afborganir á mánuði til að byrja meðen undir lokin á þessum 40 árum um 651 þúsund krónur. Heildarendurgreiðslan er rúmar 137 milljónir og 800 þúsund krónur.

En ef hún fær hluta af launum í evrum og tekur evrulán? Jú, þá væru fyrstu greiðslur kringum 146 þúsund krónur en um 236 þúsund í lok lánsins. Endanleg greiðsla yrði rúmar 107 milljónir, um 30 milljónum lægri en af íslenska láninu.

En hvernig væri að taka japanskt jenalán, lægri vextir finnast varla? Jú, af því vextirnir eru lágir þá yrðu fyrstu afborganir svipaðar og á krónuláninu, síðustu afborganir langtum lægri og heildarendurgreiðsla rúmlega 81 milljón eða um 56 milljónum króna minna en krónulánð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×