Innlent

Vilhjálmur vildi að Þórólfur segði af sér vegna ósannsögli

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, skoraði á Þórólf Árnason fyrrverandi borgarstjóra að segja af sér á sínum tíma, vegna tengsla hans við verðsamráð olíufélaganna. Þá sagði Vilhjálmur alvarlegt ef stjórnmálamenn segðu ekki satt.

Karen Kjartansdóttir blaðamaður á Fréttablaðinu skrifar um framgöngu Vilhjálms í aðdraganda þess að Þórólfur Árnason, borgarstjóri Reykjavíkurlistans, sagði af sér embætti árið 2003.

Þórólfur lá undir ámælum vegna fyrra starfa sinna hjá Olíufélaginu, sem varð uppvíst að verðsamráði með hinum stóru olíufélögunum og það samráð bitnaði m.a. á Reykjavíkurborg. Vilhjálmur sagði um Þórólf í Fréttablaðinu hinn 30. júlí 2003: „Hann er ekki að segja satt og rétt frá og vísa ég til hans eigin gagna því til stuðnings."

Síðar segir Vilhjálmur: „Það er mjög alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn segja ekki satt og rétt frá. Ég get einfaldlega sagt það að ef ég væri staðinn að svona löguðu þá myndi ég segja af mér. Hann verður hins vegar að gera þetta sjálfur upp við sína samvisku," segir Vilhjálmur.

Í ágústmánuði tjáir Vilhjálmur sig aftur í Fréttablaðinu um stöðu Þórólfs. Hinn 22. ágúst er haft eftir Vilhjálmi: „Þórólfur segir að hann hafi bara fengið tölur frá forstjóranum og ekki vitað hvað hann var að skrifa undir. Það er nú ekki merkilegt svar," segir Vilhjálmur.

Sjálfur hefur hann borið fyrir sig í REI-málinu að hann hafi ekki alltaf haft öll gögn og upplýsingar við hendina þegar hann tók ákvarðanir. Frá því að Vilhjálmur mælti þessi orð um Þórólf í júlí og ágúst 2003, leið rúmt ár þar til Þórólfur sagði síðan af sér. Hann tilkynnti afsögn sína hinn 9. nóvember 2004 og lét af embætti hinn 30. nóvember.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×