Innlent

Fjölskyldu gert að fara af kirkjujörð

Illa heiðrar kirkjan minningu séra Péturs í Laufási með því að neyða fjölskyldu hans burt af jörðinni, segir kona í Grýtubakkahreppi í opnu bréfi til biskups. 97% sóknarbarna vilja að fjölskylda hans fái áfram að búa á Laufási en kirkjan segist verða að fara að reglum.

Séra Pétur Þórarinsson prestur í Laufási í Eyjafirði lést í fyrra eftir erfið veikindi og sagði hann sögu sína í Kompásþætti, skömmu fyrir andlátið. Laufásjörðin er í eigu kirkjunnar og nokkru eftir andlát Péturs gekk undirskriftalisti sem sendur var Biskupsstofu þar sem 97% sóknarbarna óskuðu þess að fjölskylda Péturs fengi áfram að búa á jörðinni og reka búskap þótt nýr prestur kæmi í Laufás. Það sem einkum hefur farið fyrir brjósti á fólki er að Biskupsstofa vill að sonur Péturs, Þórarinn, fjarlægi íbúðarhús sitt fyrir vorið af jörðinni.

Ásta F. Flosadóttir íbúi á Höfða 1 í Grýtubakkahreppi hefur nú sent opið bréf til biskups þar sem hún talar um uppbyggingu Laufásfólksins á jörðinni síðustu árin. "Að sama skapi er það dapurlegt að verða vitni að tilraunum þröngs hóps innan prestastéttarinnar að bola fjölskyldu séra Péturs burt úr Laufási, "segir í bréfi hennar.

Hún segir ennfremur: Illa heiðrar kirkjan minningu séra Péturs með því að neyða fjölskyldu hans burt úr Laufási. Það er nöturlegt að hugsa til þess að öll þau fögru orð sem biskup og prestastéttin viðhafði við andlát Péturs skuli nú vera gleymd, og grafin með honum. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hefur einnig lýst óánægju með afstöðu kirkjunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu hefur kirkjan komið á móts við fjölskyldu Péturs til dæmis með því að bjóða syni Péturs, Þórarni, jörðina til búrekstrar í 4 ár. Biskupsstofa segist aðeins hafa farið að lögum og reglu en ef ekki náist sættir gæti málið farið þannig að prestsetrið verði flutt og Laufásjörðin verði seld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×