Skoðun

Samráðið var blekking

Siv Friðleifsdóttir skrifar
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru gefin fyrirheit um samráð í öryggis- og varnarmálum landsins. Þar segir: „Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál.“ Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur einnig hælt sér af boðuðum samráðsvettvangi. Þó bólar ekkert á honum. Við fulltrúar í stjórnarandstöðunni höfum margoft spurt Ingibjörgu Sólrúnu af hverju boðaður samráðsvettvangur er ekki settur á laggirnar svo hann geti tekið til starfa. Hvað tefur ráðherrann, sem hefur ítrekað komið orðinu „samráðsstjórnmál“ í umræðuna?

@Megin-Ol Idag 8,3p :Markmiðið með boðuðum samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna var væntanlega að ná eins breiðri samstöðu og unnt er um varnar- og öryggismál landsins. En hver er staðan í dag? Jú, bæði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og Ingibjörg Sólrún vinna frumvörp sem snerta þessi mál án nokkurs samráðs við stjórnarandstöðuna. Hvaða falsheit eru það að boða samráð, en leggja síðan meginlínur í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar í myrkvuðum kompum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar? Upplýst er að Ingibjörg Sólrún hefur unnið frumvarp um Varnarmálastofnun, sem er til umræðu í þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og verður lagt fram eftir áramót, mun seinna en áætlað var. Einnig er Björn búinn að leggja fram frumvarp á Alþingi um að almannavarna- og öryggismálaráð marki stefnu í almannavarna- og öryggismálum til þriggja ára í senn. Hann hefur líka unnið frumvarp um varalið lögreglu sem er tilbúið í ríkisstjórn og verður lagt fram eftir áramót og frumvarp um öryggisþjónustu ríkisins sem hefur verið kynnt trúnaðarmönnum stjórnarflokkanna.

Hvað er á seyði? Átti samráðsvettvangur stjórnmálaflokkanna um öryggismál að taka til starfa eftir búið var að klára alla stefnumótun? Í stað samræðustjórnmála væri nær að utanríkisráðherra auglýsti nýtt fyrirbæri, þ.e. eftirásamráð. Eða er ástæðan sú að stjórnarflokkarnir treysta sér ekki til að opinbera ágreining sinn í málaflokknum? Nú þegar hefur Björn verið gerður afturreka í stjórnarsamstarfinu því Ingibjörg boðar stofnun Varnarmálastofnunar þó að ný stofnun í kringum ratsjárkerfið sé stílbrot að sögn Björns. En eitt er ljóst, boðað samráð við stjórnmálaflokkana um öryggismál var bara ein stór blekking eftir allt saman.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×