Innlent

Telur umhverfisáhrif vegna Bitruvirkjunar ekki umtalsverð

MYND/Kjartan Pétur Sigurðsson

Umhverfisstofnun leggst ekki gegn Bitruvirkjun sem Orkuveita Reykjavíkur áformar að reisa á Hengilssvæðinu og telur að með fullnægjandi mótvægisaðgerðum sé ekki líklegt að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði umtalsverð. Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar um frummatsskýrslu vegna framkvæmdanna.

Bitruvirkjun, sem verður allt að 135 megavatta jarðvarmavirkjun, hefur verið nokkuð umdeild og var um 400 athugasemdum skilað inn til Skipulagsstofnunar vegna framkvæmda við hana. Þá lagðist skipulags- og bygginganefnd Hveragerðisbæjar alfarið gegn virkjuninni þar sem hún var talin hafa veruleg skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúða- og ferðamannasvæðis.

Virkjunin á að rísa í landi sveitarfélaganna Ölfuss og Grímsnes- og Grafningshrepps. Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að framkvæmdasvæði virkunarinnar sé að mestu leyti á náttúruminjaskrá og þá sé það mikilvægt útivistarsvæði. Það muni skerðast til muna vegna framkvæmdanna sem jafnframt munu hluta Hengilssvæðið í sundur. Svæðið muni því fá ásýnd iðnaðarsvæðis og því sé sérlega mikilvægt að raska sem minnstu og að sjónræn áhrif framkvæmdanna verði sem minnst.

Þá segir Umhverfisstofnun að umfjöllun um vatnsverndarsvæði sé ábótavant í frummatsskýrslu Orkuveitunnar og umfjöllun um landslag of þröng í skýrslunni. Þetta sé vegna þess að ekki sé búið að breyta aðalskipulagi á svæðinu og tekur Umhverfisstofnun undir áskorun Skipulagsstofnunar um að það verði gert.

Umhverfisstofnun gerir enn fremur loftgæði að umtalsefni og bendir á að sammögnunaráhrif verði vegna fjögurra jarðvarmavirkjana á Hellisheiði. Þannig verði losun brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun, Nesjavallavirkjun, Hverahlíðarvirkjun og Bitruvirkjun 26.300 tonn á ári sem er rúmlega fimm sinnum meiri en hún hefur verið á landinu öllu á síðustu árum.

Vegna þess að brennisteinsvetni geti hugsanlega haft áhrif á heilsu manna vill Umhverfisstofnun að fylgst verði með styrk þess og annarra mengandi efna með því að koma upp mælistöðvum í austustu byggðum Reykjavíkur, eins og Norðlingaholti, á útvistarsvæði í grennd við virkjanirnar á Hellisheiði og vestast í byggðinni í Hveragerði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×