Innlent

Áfengi hækki með nýjum lögum verði áfengisgjald ekki lækkað

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna. MYND/Vilhelm

Áfengishópur Félags íslenskra stórkaupmanna býst við að áfengi muni hækka verulega frá því sem nú er verði áfengisgjöld ekki lækkuð samfara því að einokun ríkisins á áfengissölu verður afnumin.

Þetta kemur fram í athugasemdum stórkaupmanna við hið svokallaða bjór- og léttvínsfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi. Stórkaupmenn benda á að álagning ÁTVR sé mjög lítil og sérverslunum verði ekki stætt á rekstri með svo lítilli álagningu. Því muni áfengisverð hækka ef áfengisgjöld verði ekki lækkuð. Segja stókaupmenn að Íslendingar eigi heimsmetið í áfengisgjöldum.

Stórkaupmenn vilja enn fremur að áfengisfrumvarpið nái til allra áfengistegunda, ekki bara bjórs og léttvíns, annars sé hætta á fjölda kærumála vegna röskunar á samkeppni. Þá vilja stórkaupmenn að aðlögunartími frumvarpsins sé að minnsta kosti eitt ár í ljós þess að ríkið hafi selt áfengi síðustu 85 ár.

Enn fremur segja þeir að breyta verði lögum um áfengisauglýsingar ef sala áfengis verði leyfð á opnum markaði. Þörf sé á skýrum lögum sem ekki bjóði upp á að fram hjá þeim sé farið.

Segir Félag íslenskra stórkaupmanna að ef breytingar verði á lögum muni félagið leggja áherslu á að fyrirtæki innan greinarinnar setji sér siðareglur um áfengisauglýsingar. Enn fremur leggur FÍS til að allt forvarnarstarf verði aukið verulega frá því sem nú er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×