Innlent

Húsleit í klúbbhúsi Fáfnismanna

Lögreglan í Reykjavík gerði húsleit í klúbbhúsi Fáfnismanna við Frakkastíg fyrir hálftíma síðan. Voru um tuttugu sérsveitarmenn sem brutust inn í húsið þar sem Jón Trausti Lúthersson meðlimur samtakanna var innan dyra.

Ekki er vitað á þessari stundu hverju lögreglan var að sækjast eftir en orðrómur hefur verið um komu meðlima hinnar alræmdu mótorhjólaklíku Hells' Angels hingað til lands um helgina.

Fjórir kolsvartir ómerktir sendibílar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti um klukkan 16:15 og gerðu strax atlögu að húsinu sem er vel girt af með gaddavírsgirðingum og einum stórum gám.

Ruddist lögreglan inn um þrjá innganga á húsinu og var með múrbrjót til þess að brjóta sér inngöngu. Einnig var lögreglan með skildi og var greinilegt að sérsveitin var mætt á staðinn.

Nokkuð greiðlega gekk að komast inn í húsið og var götunni lokað á meðan.

Nokkur umferð hafði verið til og frá húsinu klukkutíma áður en lögreglan réðst inn og svo virðist sem einungis Jón Trausti hafi verið inni í húsinu þegar lögreglan mætti.

Skömmu áður en lögreglan mætti á staðinn kom hvellhetta út um glugga klúbbhússins og sprakk í nálægum bakgarði.

Klúbbhús Fáfnismanna hefur ekki vakið mikla lukku nágranna og samkvæmt heimildum Vísis hefur lögreglan tvisar ráðist til atlögu í húsinu. Fyrst í desember í fyrra og aftur í sumar.

Uppákoman náðist á myndband og er von á því inn á Vísi innan skamms.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×