Lífið

Stórstjörnur í spurningaþætti RÚV

Fjölnir Þorgeirsson hyggst ekki gefa neitt eftir fyrir hönd Hveragerðisbæjar.
Fjölnir Þorgeirsson hyggst ekki gefa neitt eftir fyrir hönd Hveragerðisbæjar.

„Sveitarfélögin eru í góðum gír og það ríkir mikil stemning í kringum þennan þátt,“ segir Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri RÚV, en nú styttist í að blásið verði til leiks í spurningakeppni sveitarfélaganna. „Liðin eru að mótast og það er kominn heildarmynd á þetta,“ bætir hann við en upptökur á þættinum fara fram í upptökuveri Sjónvarpsins þannig að allir sitja við sama borð.

Samkvæmt vefsíðu bb.is er lið Ísafjarðarbæjar skipað þeim Halldóri Smárasyni, Ragnhildi Sverrisdóttur og fyrrum skólameistaranum Ólínu Þorvarðardóttur. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður enginn hörgull á stórstjörnum því Fjölnir Þorgeirsson mun etja kappi fyrir hönd Hveragerðis en hann gæti þar með bætt enn einum „Íslandsmeistaratitlinum“ í safn sitt.

Þá ætlar stórsöngvarinn Einar Ágúst Víðisson að sýna hvað í honum býr fyrir hönd Fjarðabyggðar og rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson verður í liði Snæfellsbæjar. Heimildir Fréttablaðsins herma jafnframt að það verði engin önnur en Diddú sem ætli að syngja sig inní hjörtu landsmanna fyrir Mosfellsbæ og að Björk Jakobsdóttir ætli sér að halda merki Hafnarfjarðar á lofti í þáttunum. Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu verða stjórnendur þáttarins þau Þóra Arnórsdóttir og Sigmar Guðmundsson en fyrsti þátturinn fer í loftið fjórtánda september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×